Enski boltinn

Slæmar fréttir fyrir Tottenham: Pochettino spenntur fyrir stjórastólnum hjá Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mauricio Pochettino hvetur sína menn áfram í leik á Old Trafford.
Mauricio Pochettino hvetur sína menn áfram í leik á Old Trafford. Vísir/Getty
Argentínumaðurinn Mauricio Pochettino hefur gert frábæra hluti með Tottenham liðið undanfarin fjögur ár en sá tími gæti verið á enda.

Enska blaðið Times skrifar um það í dag að Mauricio Pochettino sé spenntur fyrir möguleikanum á að gerast framtíðarknattspyrnustjóri Manchester United.

Það gæti hinsvegar kostað sitt fyrir United því þá þyrfti félagið að borga Tottenham 34 milljónir punda í bætur.





Allt bendir til þess að Ole Gunnar Solskjær verði kynntur í dag sem tímabundinn knattspyrnustjóri Manchester United en að framtíðarstjórinn verði síðan ráðinn í sumar.

Mauricio Pochettino skrifaði undir nýjan fimm ára samning við Tottenham 24. maí síðastliðinn og gildir sá samningur til ársins 2023.

Í frétt Times er sagt að Mauricio Pochettino líti svo á að tilboð frá Manchester United sé bara of gott tilboð til að geta hafnað því. Hann neitaði líka að loka á þennan möguleika á blaðamannafundi í gær.





Það er samt mikill peningur að þurfa að „kaupa“ nýjan stjóra fyrir 34 milljónir ekki síst þar sem félagið á enn eftir að borga upp samning Jose Mourinho. United þyrfti þá að borga yfir 50 milljónir punda fyrir þessa stjórabreytingu og þá erum við ekki farin að tala um sjálfan launakostnaðinn hjá Pochettino.

Það koma líka fleiri til greina í starfið og ensku fjölmiðlarnir hafa verið duglegir í sínum vangaveltum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×