Viðskipti erlent

George Soros maður ársins hjá Financial Times

Stefán Ó. Jónsson skrifar
George Soros er umdeildur eftir um 30 ára baráttu fyrir opnum samfélögum.
George Soros er umdeildur eftir um 30 ára baráttu fyrir opnum samfélögum. Getty/Simon Dawson
Breska dagblaðið Financial Times hefur valið ungversk-bandaríska auðjöfurinn George Soros sem mann ársins. Miðillinn greindi frá vali sínu í morgun.

Í rökstuðningi Financial Times segir meðal annars að Soros hafi verið ötull baráttumaður fyrir frjálslyndi, lýðræði og opnum samfélögum. Hann hefur látið mikið fé af hendi rakna til ýmissa samtaka og einstaklinga sem deila þessum hugðarefnum hans - en fyrir vikið skapað sér mikla óvild á hinum þjóðernissinnaða hægri væng stjórnmálanna.

Í því samhengi má nefna forsætisráðherra heimalands hans, Viktor Orbán, sem er í sérstaklega mikilli nöp við Soros. Til að mynda komu stjórnvöld Orbán því um kring í upphafi mánaðar að háskóla einum í Búdapest, sem nýtur fjárstuðnings Soros, verður gert að yfirgefa höfuðborgina.

Soros, sem er 88 ára gamall, var metinn á um 8 milljarða bandaríkjadala í upphafi árs en talið er að hann hafi gefið hið minnsta 32 milljarða dala til góðgerða- og baráttusinna í gegnum tíðina.

Nánar má fræðast um útnefninguna og rökstuðninginn fyrir henni á vef Financial Times.

Ungverskum stjórnvöldum er svo illa við George Soros að þau keyptu fjölda veggspjalda og auglýsingaskilta í aðdraganda þingkosninganna í vor. Á skiltunum mátti sjá Soros og stjórnarandstæðinga, sem stjórnvöld sögðu vilja rífa niður girðinguna sem reist hefur verið á landamærum ríkisins.Getty/Adam Berry

Tengdar fréttir

Soros fjárfestir í andstæðingum Brexit

Auðjöfurinn George Soros hefur boðið gagnrýnendum sínum birginn með því að fjárfesta enn frekar í baráttuhópnum Best for Britain sem berst gegn fyrirhugaðri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×