Innlent

Bíræfnir þjófar brutust inn þótt barn og hundar væru heima

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögregla hefur haft nóg að gera vegna innbrota í nóvember og virðist ekkert lát á í jólamánuðinum, desember.
Lögregla hefur haft nóg að gera vegna innbrota í nóvember og virðist ekkert lát á í jólamánuðinum, desember. Vísir/Vilhelm
Innbrot á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki verið fleiri í einum mánuði frá því í október 2011. Brotist var inn í hús í Lindahverfi í gær og Kórahverfi í dag. Í síðarnefnda tilfellinu var barn og tveir hundar heima á tíunda tímanum þegar þjófarnir létu greipar sópa.

Heimir Ríkharðsson, lögreglufulltrúi í Kópavogi, segir engan hafa verið handtekinn vegna innbrotanna í gær og í dag. Verklagið hafi verið svipað. Gluggar spenntir upp og skartgripum og úrum stolið ásamt fleira smádóti. Í innbrotinu í morgun virðist sá sem var heima ekki hafa orðið þjófanna var og líklega heldur ekki þjófarnir.

Íbúi í Kórahverfinu varð var við handtöku á leikvelli í Austurkór í morgun. Heimir segir að þjófar með fíknivanda hafi verið handteknir með stolna muni. Þó ekki þá sem stolið var í fyrrnefndum innbrotum.

Heimir beinir þeim tilmælum til fólks að loka gluggum vel og minnir á mikilvægi nágrannavörslu. Lögreglan hefur varað við því að erlendur brotahópur sé kominn hingað til lands gagngert í þeim tilgangi að brjótast inn. Af þessu tilefni biður lögreglan íbúa á höfuðborgarsvæðinu um að vera vel á verði, gæta að verðmætum, læsa vel húsum sínum.

Heimir bendir á að það séu oft hús á jaðarsvæðum sem þjófar brjótist inn í. Hús við enda gatna þar sem er göngustígur, trjágróður eða jafnvel ekkert öðru megin við húsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×