Handbolti

Guðmundur ætlar að prófa eitt og annað í fyrri leiknum á móti Barein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigvaldi Guðjónsson er að fara að spila bikarúrslitaleik með Elverum á milli jóla og nýárs og kemur því seint til móts við liðið.
Sigvaldi Guðjónsson er að fara að spila bikarúrslitaleik með Elverum á milli jóla og nýárs og kemur því seint til móts við liðið. Vísir/Daníel
Íslenska karlalandsliðið í handbolta mun spila tvo leiki hér heima í lokaundirbúningi sínum fyrir HM í Þýskalandi.

Báðir leikirnir verða á móti Barein í Laugardalshöllinni en Barein er einmitt með Íslandi í riðli má HM og liðið þjálfar Íslendingurinn Aron Kristjánsson.

„Þessi undirbúningur er eins góður og við gátum sett saman. Það er ekki einfalt að fá landsleiki hingað heim,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, á blaðamannafundi í dag þar sem hann tilkynnti um æfingahópinn sinn fyrir HM.

Leikirnir við Barein fara fram 28. og 30. desember.

„Barein er með okkur í riðli en það hefur hingað til ekki reynst okkur slæmt. Þetta er kærkomið verkefni,“ segir Guðmundur en hann setur leikina upp á misjafnan hátt.

„Fyrri leikurinn snýst um að prófa eitt og annað og skoða betur stöðuna á leikmönnum,“ sagði Guðmundur og nefndi sérstaklega miðjustöðuna, línustöuna og varnarhlutverk leikmanna.

Guðmundur ætlar að nýta fyrri leikinn vel og mun nota í honum leikmenn úr b-landsliðinu. Síðustu leikmennirnir koma nefnilega ekki til móts við liðið fyrr en 29. desember.

Í seinni leiknum ætlar hann að spila á sínu sterkasta liði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×