Handbolti

„Eitt erfiðasta val sem ég hef tekið þátt í“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bjarki Már Elísson spilar ekki á HM eins og staðan er í dag
Bjarki Már Elísson spilar ekki á HM eins og staðan er í dag Vísir/Getty
Bjarki Már Elísson er ekki í 20 manna æfingahópi Guðmundar Guðmundssonar fyrir HM í janúar og fer því líklega ekki á HM nema aðrir detti út. Guðmundur sagði þetta eitt erfiðasta val hans í kringum landsliðið.

Ísland fær stuttan undirbúning áður en liðið heldur út til Þýskalands á HM sem hefst um miðjan janúar. Liðið hefur æfingar strax á morgun en menn verða enn að týnast inn í hópinn allt fram til áramóta.

„Málið er þannig að þetta eru 3 frábærir hornamenn. Ég ákvað að velja bara tvo því undirbúningurinn er mjög skammur,“ sagði Guðmundur á blaðamannafundi í dag þegar 20 manna hópurinn var kynntur.

„Áður hafa verið valdir þrír og mér finnsst það bara ekki rétt. Rétt að taka ákvörðunina núna. Ég vil ljúka þessu fyrr frekar en að vera með þrjá frábæra menn og láta þá bítast um stöðuna á stuttum tíma.“

„Ég er búinn að tala við Bjarka og hann er klár ef á þarf að halda. Það er erfitt þegar um jafn góða leikmenn ræðir að skilja einn eftir og þetta var eitt erfiðasta val sem ég hef tekið þátt í varðandi landsliðið,“ sagði Guðmundur og þetta er í þriðja sinn sem hann stýrir landsliðinu svo það eru ansi margar ákvarðanir sem hann hefur þurft að taka.

„Hann sýndi þessu þann skilning sem ég vonaðist eftir og símtalið var á mjög faglegum nótum,“ sagði Guðmundur Guðmundsson.

Ísland leikur tvo vináttuleiki við Barein í Laugardalshöll milli jóla og nýárs, heldur svo til Noregs á stutt æfingamót áður en HM hefst þann 11. janúar gegn Króatíu.



Klippa: Guðmundur um valið á hornarmönnunum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×