Viðskipti innlent

Stökk beint í djúpu laugina við þróun laxaverksmiðju í nýsköpunarkjarna Marel

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Halla Björk Ragnarsdóttir hugbúnaðarhönnuður hjá Marel.
Halla Björk Ragnarsdóttir hugbúnaðarhönnuður hjá Marel. Vísir/fréttir Stöðvar 2
Innan við einu ári frá útskrift úr hugbúnaðarverkfræði tók ungur forritari í nýsköpunarkjarna Marel þátt í hönnun á einni stærstu og fullkomnustu laxaverksmiðju heims sem hefur nú risið á eyjunni Hidra við strendur Noregs. Hún segir þetta hafa verið draumaverkefni.

Marel er alþjóðlegt hátæknifyrirtæki í fararbroddi í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og lausna fyrir matvælaiðnað. Nýsköpunarkjarni Marel (Marel innovation) er líklega vinnurými sem er það eina sinnar tegundar hér á landi en það er sett upp að erlendri fyrirmynd. Tækni- og nýsköpunarfyrirtæki eins og Google, Apple, Facebook, Netflix og Spotify hafa breytt stöðlum þegar kemur að skrifstofurými. Þar sem hugbúnaðarhönnuðir og verkfræðingar koma saman er gerð krafa um að vinnurýmið sé afslappað og fjölbreytt til að mynda frjóan jarðveg fyrir nýsköpun.

„Það er búið að gera nýjar kröfur á markaðnum. Fyrirtæki eins og Google og Spotify eru með gríðarlega flott húsnæði sem aðrir horfa til,“ segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Marel á Íslandi. 

Hjá Marel starfa 5.500 starfsmenn, þar af 600 á Íslandi. Veltan er milljarður evra en félagið ver 6 prósent tekna sinna í rannsóknir og þróun. Og hún fer fram í nýsköpunarkjarnanum. Á meðal starfsmanna er Halla Björk Ragnarsdóttir en hún útskrifaðist með BS-gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá HÍ á síðasta ári. Hún stökk beint í djúpu laugina í nýsköpunarkjarna Marel því innan við ári frá útskrift hafði hún tekið þátt í hönnun á einni fullkomnustu laxaverksmiðju í heimi. 

Fjallað var um nýsköpunarkjarna Marel í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld en sjá má umfjöllunina hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×