Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 26-24 │Valur vann KFUM-slaginn

Benedikt Grétarsson skrifar
vísir/vilhelm
Valur vann Hauka 26-24 í 11. umferð Olísdeildar karla í handbolta þegar liðin mættust í Origo-höllinni að Hlíðarenda. Sigur Valsmanna þýðir að þrjú lið eru efst og jöfn á toppi deildarinnar með 16 stig og FH er skammt undan með 15 stig.

Agnar Smári Jónsson skoraði sjö mörk fyrir Val og Daníel Freyr Andrésson varði 17 skot. Brynjólfur Snær Brynjólfsson og Orri Freyr Þorkelsson skoruðu sex mörk fyrir Hauka og Grétar Ari Guðjónsson varði 15 skot.

Valsmenn voru ekki búnir að gleyma því að Haukar fóru illa með þá í fyrra í bæði deild og bikar. Alexander Örn Júlíusson var mjög tilbúinn í leikinn og reyndar svo tilbúinn að hann fékk rautt spjald fyrir að slá í andlit Haukamannsins Daníels Þórs Ingasonar þegar leikurinn var varla farinn af stað.

Þetta áfall virtist ætla að koma í bakið á Valsmönnum og Haukar komust í 4-2. Þá skelltu heimamenn í lás varnarlega og Daníel Freyr Andrésson var gríðarlega sterkur í markinu.

Valur snéri leiknum sér í vil og höfðu í raun öll ráð Hauka í hendi sér. Þegar fyrri hálfleik lauk, voru það Valsmenn sem höfðu þriggja marka forystu, 15-12 og gátu verið ósáttir að hafa ekki enn betri tök á frekar taktlausu Haukaliði.

Það var fátt sem benti til annars en öruggs heimasigurs fyrstu 10 mínútur seinni hálfleiks. Valur hélt sterkum tökum á leiknum en í stöðunni 21-17 skoruðu Haukar fjögur mörk í röð og skyndilega var leikurinn að standa undir nafni.

Gestirnir úr Hafnarfirði fengu gullið tækifæri til að komast yfir í leiknum á ögurstundu en sambland af óheppni og klaufaskap varð þess valdandi að Haukar náðu aldrei að stíga yfir þann mikilvæga þröskuld að komast yfir.

Agnar Smári Jónsson sýndi á lokamínútum leiksins af hverju hann er þyngdar sinnar virði í gulli í spennuleikjum og frammistaða hans vóg ansi þungt í sanngjörnum sigri Vals.

Af hverju vann Valur leikinn?

Varnarleikur Vals og markvarsla lagði grunninn að þessum sigri. Að halda Haukum í 24 mörkum án Alexanders Arnar Júlíussonar segir úmislegt um styrkleika Valsliðsins og þeir eru til alls líklegir. Baráttan var til fyrirmyndar og takturinn var bara meiri í Valsliðinu í þessum leik.

Hverjir stóðu upp úr?

Agnar Smári Jónsson og Róbert Aron Hostert sýndu hvers vegna Valur fékk þá til sín. Í viðureignum þessara liða í fyrra, gátu Haukar beðið með varnarmúrinn sinn aftarlega en það gegnur ekki gegn þessum frábæru skyttum. Bræðurnir Gíslasynir voru sterkir í vörn og Daníel afar traustur í markinu.

Grétar Ari Guðjónsson var heilt yfir besti maður Hauka í kvöld.

Hvað gekk illa?

Ásgeir Örn Hallgrímsson vill eflaust gleyma þessum leik sem fyrst. Það var nánast sársaukafullt að fylgjast með þessum margreynda kappa í leiknum þar sem gjörsamlega allt gekk á afturfótunum. Haukar verða að fá meira frá silfurdrengnum en þetta.

Hvað gerist næst?

Tvöfalt Derby! Valsmenn mæta Fram að Hlíðarenda og Haukar fara í stuttan rúnt í Kaplakrika til að spila við vini sína í FH.

Snorri: Mikilvægt að brjóta þennan ís

Valsmen riðu ekki feitum hesti gegn Haukum í fyrra en Ásvellingar slógu Valsmenn út í bæði deild og bikar. Snorri Steinn Guðjónsson vildi þó ekki meina eftir leik að um einhverskonar andlegan vendipunkt hafi verið um að ræða eftir sigurinn á Haukum í kvöld.

„Þetta snérist ekkert um Haukaleikina í fyrra fyrir okkur. Þetta snérist bara um að við erum í ákveðinni vegferð og höfum ekki verið að vinna þessi „topplið“ í deildinni ef það er hægt að segja það.“

„Mér finnst aðallega mikilvægt að við séum búnir að brjóta þann ís og erum á toppnum með Haukum og Selfossi. Það er samt ákveðin kúnst að halda vel á spilunum og fylgja þessu eftir líka,“ sagði Snorri Steinn.

Sigurinn var heilt yfir sanngjarn að mati blaðamanns en Snorri er ekkert að hoppa á þá skoðun, enda ýmsu vanur.

„Ef maður vinnur handboltaleiki, þá á maður nú oftast sigurinn skilið og eins þegar maður tapar. Við vorum að leiða lungann af leiknum og vorum með tögl og haldir. Við missum aðeins taktinn sóknarlega, sérstaklega í seinni hálfleik þegar við erum ekki eins beittir og í þeim fyrri.“

„Þetta var samt heilt yfir góður leikur og við vorum bara að spila á móti frábæru liði, þannig að það var alveg viðbúið að Haukarnir myndu aðeins grimmari í seinni hálfleik,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson.

Gunnar: Þeir höfðu match-winner

„Við vorum bara lengi í gang en ég er engu að síður ánægður með seinni hálfleikinn þegar við komum okkur inn í leikinn aftur. Við fáum tvo sénsa til að komast yfir þegar stutt er eftir en náum aldrei að stíga yfir þann þröskuld. Færin voru til staðar en það gekk ekki upp. Svo hafði Valur bara „match-winner“ í lokin í Agnari Smára og þar kláraðist þetta,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka eftir 26-24 tap liðsins gegn Val í kvöld.

Gunnar segir möguleikann hafa falist í því að komast yfir á lykilaugnabliki í seinni hálfleik.

„Það hefði verið ákveðinn vendipunktur að komast yfir undir lokin og þá hefðu þeir kannski brotnað. En heilt yfir, þá voru Valsmenn bara betri í kvöld og ég bara ekkert rosalega ánægður með frammistöðuna hjá mínu liði.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira