Handbolti

Agnar Smári: Unnum þetta fyrir afa og systur mína

Benedikt Grétarsson skrifar
Agnar Smári var öflugur í kvöld.
Agnar Smári var öflugur í kvöld. vísir/ernir
Agnar Smári Jónsson var í kunnuglegri stöðu í 26-24 sigri Vals gegn Haukum í kvöld. Þessi magnaði leikmaður steig upp á ögurstundu og skoraði gríðarlega mikilvæg mörk. Þjálfari Hauka sagði Agnar hafa verið muninn á liðunum og skyttan er bara nokkuð sammála þeirri greiningu.

„Jú jú. Ég klikka reyndar á hræðilegu skoti hérna undir lokin, skoti sem ég átti aldrei að taka. Ég á að vera reynslumeiri en það. Þetta er samt gaman,“ sagði Agnar brosandi eftir leik.

Valsmenn virkuðu kraftmeiri en Haukar og sigurinn var sanngjarn.

„Já, við bara ákváðum að keyra á þá en það hefur ekkert lið keyrt á þá í vetur. Við sóttum bara mikið á bestu varnarmennina þeirra og þreyttum þá. Við uppskárum svo bara eins og við sáðum, bara geggjað.“

Alexander Örn Júlíusson fékk rautt spjald eftir aðeins 40 sekúnda leik og það fannst Agnari skit.

„ Ég tjái mig ekkert um þetta rauða spjald. Það er bara svekkjandi fyrir Alex að fara úr leiknum en ef þetta brot verðskuldaði rautt, þá hefðu alveg getað verið þrjú rauð spjöld í viðbót í leiknum. Það skiptir samt engu núna, við vinnum þetta fyrir Alex.“

Hér tók Agnar örlitla pásu í viðtalinu og bætti svo við.

„Afi minn og systir mín eiga afmæli í dag, þannig að sigurinn er líka fyrir þau sko.“

Sigur Vals þýðir að Valur, Haukar og Selfoss hafa öll 16 stig á topi deildarinnar.

„Þetta er bara eitt stórt „threesome“ á toppnum eða hvernig sem þetta er. Það eru allir að vinna alla en svona á þetta að vera maður. Þetta er geggjað!,“ sagði Agnar kátur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×