Körfubolti

Magnaður Curry leiddi Warriors til sigurs

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það er eins og Curry hafi ekki misst neitt úr
Það er eins og Curry hafi ekki misst neitt úr vísir/getty
Stephen Curry er nýstiginn upp úr meiðslum en það kom ekki að sök þegar Golden State Warriors mætti Atlanta Hawks í NBA deildinni í nótt. Curry setti 30 stig á 29 mínútum í sigri Warriors.

Leikurinn var aðeins annar leikur Curry eftir nokkurra vikna fjarveru en það var ekki að sjá á honum. Hann einn og sér skoraði fleiri stig í fyrsta leikhluta heldur en allt lið Atlanta. Curry var með 18 af 34 stigum Warriors gegn 17 stigum Hawks í leikhlutanum. Hann setti fjögur af fimm þriggja stiga skotum sínum í leikhlutanum niður.

„Ég er bara að reyna að finna taktinn aftur. Það er gott að ná inn nokkrum skotum snemma. Við settum tóninn í leiknum snemma, við þurftum á útisigri að halda,“ sagði Curry eftir leikinn.

Curry var samtals með 30 stig í leiknum og félagar hans tveir í gullna tríói liðsins, Kevin Durant og Klay Thompson, settu 28 og 27 stig hvor í 128-111 sigri.



Stórstjarnan í Denver, Nikola Jokic, átti enn einn frábæra leikinn þegar strákarnir í Denver Nuggets sóttu Toronto Raptors heim.

Jokic var með þrefalda tvennu, skoraði 23 stig, tók 11 fráköst og sendi félögum sínum 15 stoðsendingar í 106-103 sigrinum. Þetta var í annað skiptið á tímabilinu sem Jokic nær þrefaldri tvennu.

Jokic kom Nuggets yfir af vítalínunni þegar 7 sekúndur voru eftir og setti tvö vítaskot til viðbótar með 5,6 sekúndur á klukkunni. Kyle Lowry reyndi flautukörfu til þess að jafna leikinn fyrir Raptors en skotið fór af hringnum og Denver fagnaði sigri.

Sigurinn tók Nuggets upp við hlið LA Clippers á toppi Vesturdeildarinnar með 16-7 sigurhlutfall. Sigurinn kostaði þó sitt, Gary Harris meiddist á nára í leiknum og fer í myndatöku í dag. Harris hafði sett þrjú stig á níu mínútum í fyrsta leikhluta en meiddist undir lok hans og gat ekkert tekið þátt í leiknum eftir það.



Úrslit næturinnar:

Detroit Pistons - Oklahoma City Thunder 83-110

Atlanta Hawks - Golden State Warriors 111-128

Brooklyn Nets - Cleveland Cavaliers 97-99

New York Knicks - Washington Wizards 107-110

Toronto Raptors - Denver Nuggets 103-106

Minnesota Timberwolves - Houston Rockets 103-91

New Orleans Pelicans - LA Clippers 126-129

 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×