Erlent

Segir Breta geta hætt við Brexit einhliða

Atli Ísleifsson skrifar
Bygging Evrópudómstólsins í Lúxemborg.
Bygging Evrópudómstólsins í Lúxemborg. Getty
Bresk stjórnvöld ættu einhliða að gera hætt við útgöngu sína úr Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í áliti lögsögumanns (e. advocate general) Evrópudómstólsins.

Hópur skoskra þingmanna hafði beðið dómstólinn um álit um hvort að Bretlandsstjórn gæti hætt við útgönguna án samþykkis annarra aðildarríkja ESB.

Álit lögsögumannsins Manuel Campos Sanchez-Bordona er ekki bindandi og verður endanlegur úrskurður dómstólsins ekki kynntur fyrr en síðar. Dómstóllinn á það þó til að fara eftir áliti lögsögumanns í yfirgnæfandi fjölda þeirra mála sem koma til kasta hans.

Fimm daga umræður

Evrópuþingmaðurinn Alyn Smith, sem tilheyrir Skoska þjóðarflokknum (SNP), segir álitið sýna fram á að Bretar hafi nú „vegvísi til að komast út úr Brexit-óreiðunni“.

Umræður um Brexit-samning stjórnar Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og Evrópusambandsins hefjast í breska þinginu í dag og er áætlað að fimm dagar verði lagðir undir umræðurnar.

Stendur til að þingið kjósi svo um samninginn á þriðjudaginn í næstu viku.



Geta hætt við á tveggja ára tímabilinu

Í áliti lögsögumannsins segir að ef ríki ákveði að ganga úr sambandinu, ætti það einnig að hafa vald til að skipta um skoðun á því tveggja ára tímabili sem tiltekið er í 50. grein Lissabonsáttmálans og ætlað er til viðræðna milli viðkomandi aðildarríkis og fulltrúa Evrópusambandsins um hvernig útgöngu skuli háttað.

Ætti aðildarríkið að geta hætt við útgönguna á því tímabili án samþykkis annarra aðildarríkja. Bretar munu að óbreyttu ganga úr ESB þann 29. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×