Tónlist

Með teknó-ið djúpt í blóðinu

Oddur Freyr Þorsteinsson skrifar
Elli slysaðist hálfpartinn inn í tónlist þegar gestur sem átti að rappa með Shades of Reykjavík kom með lélegt rapp og hann var fenginn til að taka við.
Elli slysaðist hálfpartinn inn í tónlist þegar gestur sem átti að rappa með Shades of Reykjavík kom með lélegt rapp og hann var fenginn til að taka við. fbl/ernir
Tónlistarmaðurinn Elli Grill hefur vakið athygli fyrir sérstakan stíl og textagerð með hljómsveitinni Shades of Reykjavík og sem sjálfstætt starfandi tónlistarmaður. Á síðasta ári gaf hann út fyrstu sólóplötu sína „Þykk fitan vol.5“ og í næsta mánuði gefur hann út aðra plötu sína, „Pottþétt Elli“.

Endaði óvart í tónlist

Elli var stofnmeðlimur í sveitinni Shades of Reykjavík. „Í byrjun vissum við bara að við vildum gera einhverja list. Ég vildi alltaf fara út í kvikmyndagerðina, en svo endaði ég í tónlistinni alveg óvart,“ segir Elli.

„Shades of Reykjavík var orðin vinsæl hljómsveit áður en ég byrjaði að rappa. Ég sá um myndböndin ásamt Arnari Guðna, en hafði alltaf sterkar skoðanir á tónlistinni. Svo opnaðist tækifæri, því það átti að vera gestur í einu laginu og hann kom með eitthvert lélegt rapp,“ segir Elli. „Þá sagði Emmi Beats, sem sá um tónlistina: „Elli gæti gert miklu betur,“ og meinti að ég væri ekki rappari en gæti samt gert betur. Ég var sammála og hann hjálpaði mér að gera þetta. Það var lagið Töfrateppi, sem varð eitt af vinsælustu lögunum hjá Shades of Reykjavík. Ég hafði aldrei rappað upphátt þegar ég gerði það.

Þetta var svolítið skondin þróun, af því að hljómsveitin var orðin svo stór. Mitt fyrsta gigg var á Prikinu og það var svo troðið að það komust ekki fleiri inn,“ segir Elli. „En eftir fyrsta giggið fann ég innra með mér að þetta var alltof auðvelt og að ég hefði einhvern svaka kraft. Það er mjög mikill djass í fjölskyldunni, sem gæti kannski útskýrt það. Ég hef litið þannig á það frá fyrsta degi að þetta sé í blóðinu.“

 

Vímuefnin skemmdu alltaf allt

Shades of Reykjavík hópurinn hefur ekki farið leynt með vímuefnaneyslu sína í gegnum tíðina og hún hefur haft augljós áhrif á tónlist sveitarinnar. Meðlimir sveitarinnar hafa hins vegar snúið við blaðinu.

„Persónulega fannst mér vímuefnin alltaf skemma allt. Ég horfði á vini mína missa það alveg og nýlega hef ég líka séð góða vini mína láta lífið út af fíkniefnum,“ segir Elli. „Auðvitað skila allar upplifanir sér inn í tónlistina, það er ekki hægt að neita því. En fyrir um fimm árum, þegar þetta var mest klikkað, var ég persónulega fremstur á hjólabretti á landinu þegar kemur að „römpum“ og „bowl-um“ og var mjög heppinn að vera að eltast við það og keppa mikið úti. Ef ég hefði farið á eitthvert klikkað djamm, þá hefði ég ekki verið eins góður á hjólabretti daginn eftir. Það má segja að hjólabrettið hafi haldið mér í jafnvægi, en það þarf náttúrulega aga líka.

Þegar maður verður eldri þá koma afleiðingarnar af þessum lífsstíl,“ segir Elli. „Það er allt annað að fara að skemmta sér en að lifa lífsstíl sem er annað hvort „gangster“ eða „junkie“, það eru alltaf afleiðingar af því og það er ótrúlega sorglegt að sjá vini sína kveðja heiminn þannig. En strákarnir í Shades hafa verið mjög opnir með þetta og ég er mjög stoltur af þeim. Það er magnað að sjá vini sína næstum búna að tapa öllu og ná að koma til baka og læra af því.“

 

Metnaður fyrir upplifunum

Elli hefur oft lifað óhefðbundnum lífsstíl í gegnum tíðina og meðal annars ferðast um heiminn nánast peningalaus.

„Til þess að verða góður tónlistarmaður vildi ég fá dýpt í lífið, svo ég hafði rosalegan metnað fyrir ferðalögum, skrítnum stöðum og að kynnast fólki með svipaða ástríðu í hinum og þessum stórborgum,“ segir Elli. „Þetta var hægt af því að ég var á hjólabretti. Ef ég ferðaðist til einhverrar borgar fór ég bara á næsta torg og kynntist skeiturum. Þegar þú ert frá Íslandi og góður að skeita þá reddarðu þér alltaf. Sérstaklega þegar þú ert líka góður að mynda. Ég hef samt oft hlegið að aðstæðunum sem ég var í. Um daginn rifjaði ég upp þegar ég gisti í hjólabrettagarði sem heitir Wonderland inni í Kristjaníu. Þetta er eitthvað sem ég myndi aldrei gera aftur. Þetta eru rosalega klikkaðar minningar.“



Fjölskyldumaður með þráhyggju fyrir tónlist

Í dag er Elli Grill fjölskyldumaður, hann á tæplega fjögurra ára gamlan son og hann og Karen, kærastan hans, voru að kaupa sér íbúð saman nálægt miðbæ Reykjavíkur.

„Ég vinn sem verktaki við að setja upp viðburði í Hörpunni. Áður var ég verktaki í skemmtanabransanum og vann meðal annars við kvikmyndagerð hjá Pegasusi og RÚV,“ segir Elli. „Ég er rosalega ánægður í Hörpunni og fæ að vinna með ótrúlegum fagmönnum sem ég læri mikið af á hverjum degi.

Vinnutíminn er breytilegur og þá daga sem ég vinn ekki er ég með þráhyggju fyrir tónlist og fer að búa til takta um leið og ég hef farið með strákinn í leikskólann,“ segir Elli. „Seinasta árið hef ég einbeitt mér að því að búa til takta fyrir nýju plötuna.“



Nýja platan að miklu leyti spuni

„Ég ákvað að vinna með Bjarka Ballatron við upptökur á nýju plötunni og það hefur verið mikill heiður að vinna með honum,“ segir Elli. „Ég var búinn að semja takta fyrir 16 lög en svo þegar við fórum að taka upp ákvað ég að gera allt upp á nýtt. Þannig að Bjarki framleiddi tíu lög sem ég „freestyle-aði“ yfir og svo framleiddi ég hin sex lögin, sem voru hugmyndir sem ég var búinn að vinna og gat ekki sleppt. Þannig að ég fórnaði tíu lögum og ég er hissa á því hversu vel það hefur gengið.

Fyrir vikið getur maður einbeitt sér meira að fönkinu í plötunni, í staðinn fyrir að vera að pæla í textum. Á Þykk fitan fór ég eins djúpt og ég gat í textagerðinni, þannig að það var þægilegt að gera andstæðuna á þessari plötu,“ segir Elli. „Ég vissi að ég gæti ekki gert það sem ég gerði á Þykk fitan seinna. Ég vildi byggja stigann með plötunum þannig upp að ég myndi gera fyrst eina þvílíkt alvarlega og svona eina þar sem ég nýt mín í botn. Ég stefni á að gera að minnsta kostir 3-4 sólóplötur. Nýja platan er miklu meira fjör og textarnir eru ekki eins persónulegir og klikkaðir.

Elli segist vera fjölskyldumaður með spes húmor og þráhyggju fyrir tónlist.fbl/ernir
Á Þykk fitan var ég líka með fastmótaðar skoðanir á því hvernig öll lögin áttu að vera fyrir fram en núna er ég opnari,“ segir Elli. „Það var líka furðulegt hvað við Bjarki smullum vel saman í samstarfinu og ég hef lært mikið af honum. Hann er algjört undur í tónlist og er að fara að gefa út sólóplötu bráðum hjá risa drum and bass útgefanda.

Ég fékk nokkra góða gesti á plötuna, þar á meðal Marlon Pollock, sem ég hef viljað gera lag með í fimm ár. Hann er svakalegur rappari og við gerðum grime-lag saman. Það er rosalegt,“ segir Elli. „Platan heitir Pottþétt Elli Grill. Þetta verður endurreisn gömlu góðu Pottþétt-platnanna. Ég stefni á að gefa hana út um miðjan nóvember og útgáfutónleikarnir verða 1. desember á Húrra.“

Óhefðbundnir áhrifavaldar útskýra stílinn

Elli Grill hefur mjög sérstakan stíl, bæði hvað varðar textagerð og flutning.

„Ég er með frekar spes húmor sem tekur tíma að fatta og ég er alinn upp við hardcore underground teknó frá mjög ungum aldri og elst mikið upp við hliðina á hátalaranum. Ég hef bara alltaf verið að pæla í tónlist og ekki séð neitt annað. Ég var líka lengi að gera teknó og vil mjög villta raftónlist,“ segir Elli. „Svo hef ég sökkt mér í underground-tónlist á mörgum ólíkum stöðum og litast af hjólabrettamenningu. Allt þetta útskýrir svolítið af hverju rímurnar mínar og tónlistin er svona.

Ég er líka ekki háður því sem er í gangi. Það er svo auðvelt að herma eftir röppurum úti, en það er stórhættulegt,“ segir Elli. „Þess vegna hlusta ég á raftónlist og underground-tónlist sem fæstir hafa heyrt. Það er eitt af mínum helstu áhugamálum.

Klikkuðustu textarnir koma yfirleitt frá mér fullkláraðir frá byrjun til enda,“ segir Elli. „Svo eru aðrir textar þar sem ég er alltaf að skrifa eina og eina línu. Ég skrifa líka alls konar línur á blað sem mér finnst fyndnar.“



Gerði plötu í Tennessee

„Í sumar fór ég fór ég til Tennessee í Bandaríkjunum og ég og tveir félagar mínir stofnuðum hljómsveit og gerðum plötu á ensku. Þetta er blanda af danstónlist og hipphoppi,“ segir Elli. „Þetta var rosalegt sérstakt, við tókum upp í vöruskemmu í eigu nokkurra listamanna frá Nashville sem halda ólöglegt reif þarna á sumrin. Hljómsveitin heitir Crunky Biscuit Funk. Mér fannst þetta svo töff tónlist að nafnið þyrfti að vera kjánalegt til að gefa þessu jafnvægi. Það er verið að klára plötuna.

Ég fer til Memphis til að fá innblástur, en það er upphafsborg crunk-sins, sem er næstum eins og trap, nema með miklu meiri horror fíling í staðinn fyrir klúbbastemmningu. Atlanta gerði svo klúbbaútgáfuna, sem er trap,“ segir Elli. „Memphis er mjög skuggalegur staður, en sem betur fer vorum við á ógeðslega skuggalegum iðnaðarmannabíl og þess vegna gátum við skoðað alla borgina í friði.“



Vill kynna sig betur

Elli er að vinna tónlistarmyndband fyrir lag á nýju plötunni. „Ég var að byrja að vinna með Midnight Mar, sem er mjög klár leikstjóri. Ég ætla líka að reyna að vera duglegur að gera einhver myndbönd sjálfur til að gefa fólki meira innsæi í tónlistina og karakterinn minn,“ segir Elli. „Elli Grill er svolítið húmorinn minn á sterum og margir vita ekki hvar þeir hafa mig, en fólk hefur hvatt mig til að kynna mig meira. Líf mitt snýst um að skapa einhverja geðveiki, þannig að mér finnst ekki skrítið að fólk sé eitthvað smeykt við mig. En ef þú kynnist mér áttarðu þig á hversu djúpt teknó-ið fer í blóðinu mínu, skilur húmorinn minn og fattar af hverju listin mín er svona.“



Undrast vinnubrögð Leoncie

Elli Grill gerði lagið „Enginn þríkantur hér“ með Leoncie árið 2015, en lagið byggði á lagi sem hún gaf út 2008. Í ágúst á þessu ári sakaði Leoncie svo Ella og Shades of Reykjavík um að eigna sér lagið og kallaði þá „hæfileikalausa“ og „vesalinga“ í Facebook-færslu.

„Leoncie kom upp í stúdíó til okkar og við gerðum lagið saman, þannig að þó þetta sé gamall texti frá henni er þetta ný upptaka. Það liðu nokkrir dagar eftir að við gáfum myndbandið út áður en ég dreif mig upp í STEF til að skrá lagið. Þá segir STEF mér að hún sé búin að skrá lagið á sig,“ segir Elli. „Þannig að hún stal mínum höfundarrétti, bæði sem flytjandi og höfundur. Hún á rappið mitt og ég skil ekki alveg hvernig það er hægt. Leoncie er algjör snillingur, en hún stal höfundarréttinum mínum og fór síðan að segja opinberlega að ég hafi stolið höfundarréttinum. Það er alveg á næsta stigi. Ég er búinn að grenja úr hlátri yfir þessu.

Hún er bara goðsögn, það eru ekki margir sem vinna svona,“ segir Elli. „STEF segir að þetta sé misskilningur hjá þeim sem þarf að laga. En það er búið að taka plötuna af Spotify, þar sem hún á höfundarréttinn og það gerir þetta eiginlega ekki fyndið lengur. En við græjum þetta og vonandi kemst þetta aftur inn á Spotify. Þetta er allt í vinnslu.“

Það er hægt að fylgjast með Ella Grill á Instagram undir elligrillehf, á YouTube undir ElliGrill, það er like-síða á Facebook og tónlistin hans er aðgengileg á Spotify.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×