Skoðun
Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir

Vikan í bílnum

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar

Ég sat föst í umferðinni í morgun og fór þá að hugsa um hvað ég ver stórum hluta dags í bílnum. Og reyndar stórum hluta lífs míns í bílnum. Samt hef ég ekkert gaman af bílum og er frekar afleitur bílstjóri. Ég rata ekki sérstaklega vel utan hverfis, þarf nokkur stæði til að leggja örugglega og um tíma hélt ég að ég ætti Hondu, en hið rétta er að ég keyri Nissan. Alla daga keyri ég í vinnu, heim úr vinnu, skutla og sæki börn í alls konar erindi. Samhliða akstrinum vinn ég svo sem lögfræðingur. Leigubílstjóri með lögfræði sem aukagrein.

Auðvitað geta stundirnar í bílnum verið góðar, svo sem þegar yngsta dóttirin segir frá því hvað hún lærði í skólanum og hvaða klúbb hún valdi á Frístundaheimilinu. Síðan í október hef ég hlustað á „Do They Know It's Christmas?“ sem mér finnst fínasta lag, þó það séu reyndar aldrei jólin í bílnum. Þegar ég er ein skipti ég um útvarpsstöð áður en ég fer út úr bílnum. Það er nefnilega á milli mín og bílsins á hvað ég hlusta. Þegar ég skutla lærðum og meðvituðum farþegum gæti ég þess að stillt sé á Rás 1 og finnst ég fín.

Í mörgum borgum auðveldar það líf fólks að eiga ekki bíl og ég trúi þeim ekki sem segja að Reykvíkingar hafi valið bílinn. Við völdum ekki bílinn. Við þurfum bíl. Samgöngurnar auðvelda okkur ekki lífið. En aðrar breytur geta líka haft áhrif á lengd bílavikunnar. Sveigjanlegur vinnutími og vinna að heiman dregur úr umferðarálagi og bílavikan styttist. Ég vil fjölskylduvænar samgöngur og bílaviku svo ég get varið tímanum með fjölskyldunni, en ekki með bílnum sem ég man ekki hvað heitir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.