Þrenna Salah skaut Liverpool á toppinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Salah fór illa með Begovic í dag
Salah fór illa með Begovic í dag Vísir/Getty
Liverpool átti ekki í miklum vandræðum með Bournemouth en liðin áttust við á Vitality leikvangnum í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Mohamed Salah lék á als oddi og hann skoraði fyrsta mark leiksins á 25.mínútu. Mark sem hefði þó með réttu átt að vera dæmt af þar sem Salah var rangstæður þegar hann fylgdi á eftir skoti Roberto Firmino. Staðan í leikhléi 0-1 fyrir gestunum.

Salah mætti enn ferskari í síðari hálfleikinn og tvöfaldaði forystuna strax á 48.mínútu eftir laglegan sprett. Steve Cook, varnarmaður Bournemouth, var næstur til að skora en hann setti boltann reyndar í eigið net og staðan orðin vænleg fyrir gestina.

Egyptinn knái var hins vegar ekki hættur því hann fullkomnaði þrennu sína með marki á 77.mínútu og gulltryggði þar með öruggan sigur Liverpool, 0-4.

Liverpool þar með komið á toppinn í ensku úrvalsdeildinni með einu stigi meira en Man City sem á þó leik til góða, gegn Chelsea á Stamford Bridge síðar í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira