Lífið

„Þetta fólk er ekkert frægt, það er bara þekkt“

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Þetta er meira kannski sorgin að missa það sem manni finnst ótrúlega gaman. Að ég geti ekki verið í „actioni“ og verkefnum eins og áður. Eitthvað sem ég er vön að gera í tuttugu ár, maður er svolítið að missa barnið sitt.“

Þetta segir fyrirsætan og athafnakonan Ásdis Rán Gunnarsdóttir, sem hefur undanfarin misseri búið á Íslandi - eftir að hafa lagt Búlgaríu undir sig, eins og hún orðar það, á árum áður.

Sjá einnig: Ásdís Rán orðin heimsfræg í Búlgaríu

Það hafi verið mikil breyting fyrir atvinnufyrirsætu að flytja frá 7 milljón manna landi á meginlandinu heim til litla Íslands þegar slitnaði upp úr sambandi hennar og fótboltakappans Garðars Gunnlaugssonar. Tækifærin hér séu afar fá og bransinn lítill. Síðasta eina og hálfa árið hjá Ásdísi hefur að miklu leyti farið í að jafna sig eftir alvarlegt fall í steyptum stiga í fyrra, þar sem hún margbrotnaði og tognaði - og þurfti að notast við hjólastól og svo hækjur svo vikum skipti.

Sjá einnig: Skreið beinbrotin upp stigann

Hún dó hins vegar ekki ráðalaus og ákvað að búa sér til ný tækifæri – skrifaði sjálfshjálparbókina Valkyrju og hóf nýlega að flytja inn svartar rósir frá Afríku, en hún segir slíkan lúxusvarning hafa vantað hér á landi. Auk þess lýkur hún fljótlega einkaþjálfaranámi og er einnig með þyrluflugmannspróf.

Býr í miðborginni með Casanova

Þrátt fyrir að una hag sínum vel í huggulegri íbúð í miðborginni ásamt dóttur sinni og kanínunni Casanova ber hún sterkar taugar til Búlgaríu og heldur þar annað heimili. Þar líður henni enn meira eins og hún sé í raun og veru heima.

Þá hefur margt breyst í íslensku samfélagi frá því Ásdís var að hefja feril sinn, en þannig eru samfélagsmiðlastjörnur líklega t.a.m. tiltölulega nýtt fyrirbæri, en þegar orðinn sá hópur sem nýtur hvað mestra vinsælda hjá ungu fólki. Ásdís hefur hins vegar litla trú á þeim glamúr sem slíkum miðlum fylgir.

„Þetta fólk er ekkert frægt, það er bara þekkt kannski í smá stund og svo er það bara búið. Það er öðruvísi þegar þú byggir upp feril eins og ég, sem er kannski orðinn rándýr ferill, af því að ég hef afrekað svo miklu,“ segir Ásdís.



Rætt varr við Ásdísi Rán í Íslandi í dag í kvöld. Þar var m.a. farið yfir frægðina, ferilinn, femínisma, fegurðarsamkeppnir og svartar rósir – svo fátt eitt sé nefnt.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×