Erlent

Atkvæðagreiðslan um Brexit fer fram samkvæmt áætlun

Kjartan Kjartansson skrifar
Öll spjót standa nú á May forsætisráðherra. Greidd verða atkvæði um útgöngusamning hennar á þriðjudag að óbreyttu.
Öll spjót standa nú á May forsætisráðherra. Greidd verða atkvæði um útgöngusamning hennar á þriðjudag að óbreyttu. Vísir/EPA
Brexit-ráðherra Bretlands segir að atkvæðagreiðslu um útgöngusamning Theresu May forsætisráðherra í þinginu verðir ekki frestað. Sumir þingmenn og ráðherrar hvetja May til að reyna að herja hagstæðari samning út úr Evrópusambandinu.

Breska dagblaðið Sunday Times hélt því fram í dag að May ætlaði sér að fresta atkvæðagreiðslunni og halda til Brussel til að semja upp á nýtt við Evrópusambandið. Útlit er fyrir að sá samningur sem nú liggur fyrir verði kolfelldur í þinginu.

„Atkvæðagreiðslan mun fara fram og það er vegna þess að þetta er góður samningur og eini samningurinn,“ segir Stephen Barclay, ráðherra Brexit-mála.

Hann telur að jafnvel þó að samningurinn verði felldur í þinginu geti May áfram setið sem forsætisráðherra.

Í sama streng tekur Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra sem sagði af sér vegna Brexit fyrr á þessu ári. Hann telur þó að May þurfi að semja upp á nýtt við Evrópusambandið, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Johnson var einn af helstu talsmönnum þess að Bretar segðu sig úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×