Erlent

Rannsaka hvort par hafi stundað kynlíf ofan á Pýramídanum mikla

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skjáskot úr myndbandinu.
Skjáskot úr myndbandinu. Mynd/Skjáskot
Egypsk yfirvöld rannsaka nú hvort danski ljósmyndarinn Andreas Hvid og ónefnd vinkona hans hafi gerst brotleg við lög. Hvid er sagður hafa tekið myndir af sjálfum sér og konu við að stunda kynferðismök ofan á einum af pýramídunum frægu í Egyptalandi. Sérfræðingur segir að myndin sé fölsuð en Hvid er þekktur fyrir að taka nektarmyndir ofan á háum byggingum.

Á vef Hvid má sjá mynd þar þar hann liggur ofan á konu og eru þau bæði nakin. Í bakgrunni er einn af pýramídunum og sjálf virðast þau einnig liggja ofan á pýramída. Myndband sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum sýnir einnig hvernig Hvid og konan klifra upp á bygginguna og sést konan meðal annars klæða sig úr að ofan.

Fornleifaráðuneyti Egypta hefur gefið út yfirlýsingu þar sem myndatakan er fordæmd en stranglega er bannað að vera á svæðinu í grennd við pýramídana eftir að svæðinu er lokað á kvöldin. Þá er einnig stranglega bannað að klifra upp á pýramídina sjálfa.

Uppi er hins vegar áhöld um hvort myndirnar séu raunverulegar eða ekki. Fornleifafræðingurinn Zahi Hawass segir hins vegar af og frá að um sé að ræða pýramidan mikla, stærsta pýramídann af þeim sem finna má í Giza, líkt og Hvid sjálfur heldur fram. Til þess séu steinarnir sem sjást undir parinu of litlir. Telur hann víst að myndin sé fölsuð.

Yfirmaður Giza-svæðisins segir að fyrsta skref rannsóknar á málinu sé að finna út úr því hvort að myndin sé fölsuð eður ei. Reynist það rétt þarf að kanna hvort einhverjar skemmdir hafi verið unnar en upphæð væntanlegrar sektargreiðslu veltur á því hvort einhverjar skemmdir hafi verið unnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×