Handbolti

Nýliðinn þurfti að færa 80 sjúklinga til

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martha á fyrstu landsliðsæfingunni.
Martha á fyrstu landsliðsæfingunni. Fréttablaðið/Ernir
Martha Hermannsdóttir er eini nýliðinn í íslenska kvennalandsliðinu í handbolta sem hefur leik í undankeppni HM í dag. Martha er ekki hinn hefðbundni nýliði, enda 35 ára þriggja barna móðir sem starfar sem tannlæknir með fram því að spila með KA/Þór í Olís-deild kvenna.

„Ef ég á að vera hreinskilin átti ég ekki von á þessu. Ég hélt að ég væri orðin aðeins of þroskuð,“ sagði Martha hlæjandi í samtali við Fréttablaðið, aðspurð hvort hún hefði átt von á því að vera valin í landsliðið í fyrsta sinn á ferlinum.

„En þetta er frábært og æðislegt að fá þetta tækifæri,“ bætti Martha við. En er þetta eitthvað sem hana hefur lengi dreymt um? „Já, ég var alltaf brjáluð þegar ég var ekki valin í landsliðið. Ég er keppnismanneskja og hef metnað,“ sagði Martha sem hefur leikið vel með KA/Þór í vetur og átt stóran þátt í góðu gengi nýliðanna.

„Þetta hefur gengið vel í vetur og það er gaman að fá þessa viðurkenningu,“ sagði Martha.

Eins og áður sagði er Martha tannlæknir og rekur sína eigin stofu á Akureyri. Uppi varð smá fótur og fit þegar hún var kölluð inn í landsliðið.

„Þetta var dálítið vesen. Þegar aðstoðarkonurnar mínar heyrðu þetta töldu þær saman að við þyrftum að færa 80 sjúklinga. Þær fengu pínu áfall en fóru síðan að færa til. Ég ætla bara að vinna alla laugardaga fram að jólum til að koma öllu þessu fólki saman. En það tóku allir rosalega vel í þetta og enginn pirraður,“ sagði Martha.

Ísland mætir Tyrklandi í kvöld, Makedóníu á morgun og Aser­baídsj­an á sunnudaginn. Riðillinn fer fram í Skopje í Makedóníu. Efsta liðið tryggir sér sæti í umspili um sæti á HM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×