Jól

Jólaleyndarmálið er rauðrófusulta

Elín Albertsdóttir skrifar
Ragnhildur Vigfúsdóttir gerir alltaf rauðrófusultu fyrir jólin.
Ragnhildur Vigfúsdóttir gerir alltaf rauðrófusultu fyrir jólin. MYND/SIGTRYGGUR ARI

Ragnhildur Vigfúsdóttir markþjálfi gerir mjög góða rauðrófusultu fyrir hver jól og gefur vinum og ættingjum. Ragnhildur lærði uppskriftina þegar hún var au pair í Skotlandi og hún hefur fylgt henni alla tíð síðan eða í 40 ár.

„Ég er ekkert sérstaklega mikið jólabarn,“ segir Ragnhildur. „Það verður einhvers konar aðventublús hjá mér. Það er svo mikið um að vera og allir eiga að njóta lífsins. Hjá mér byrja jólin þegar ég fer á Lúsíutónleika í Seltjarnarneskirkju 13. desember. Eiginmaðurinn bakar alltaf gamaldags smákökur eftir uppskriftum úr fjölskyldunni, gyðingakökur og spesíur. Ég hætti að senda jólakort fyrir nokkrum árum en sakna þess. Það er svo falleg og yndisleg hefð,“ segir Ragnhildur.

„Ég held þó alltaf í þá hefð að búa til rauðrófusultu. Þegar ég var au pair í Skotlandi var ég skilin eftir í viku með börnin hjá foreldrum mannsins í enskum kolanámubæ. Þar var ekkert við að vera svo ég lærði að prjóna sokka. Maturinn var afar fábreyttur og rauð sulta borin fram með öllu sem mér fannst reyndar afar góð. Þegar ég fletti beetroot upp í orðabókinni og sá að þetta voru rauðrófur varð ég hissa,“ segir Ragnhildur.

„Ég hafði bara kynnst þessum dönsku mauksoðnu sem voru bornar fram með sunnudagssteikinni og mér þóttu vondar,“ segir hún.

Rauðrófusultan passar með alls kyns kjöti og einnig ofan á brauð.

„Uppskriftin hefur fylgt mér í 40 ár. Fyrstu árin var oft erfitt að fá hráar rauðrófur hér á landi en það hefur lagast. Ég geri alltaf stóran skammt fyrir jólin og færi vinum og vandamönnum því hún passar einstaklega vel með jólamatnum, villtu kjöti eins og hreindýri, gæs eða rjúpu, einnig reyktu svínakjöti og hangikjöti eða bara með öllu. Ég hef alltaf neitað að gefa uppskriftina, sagðist vera að bíða eftir því að jólablöðin hefðu samband við mig. Nú loksins rættist sá draumur,“ segir Ragnhildur hress í bragði.

Rauðrófusulta Ragnhildar, ættuð frá Frú Riley

1½ kg rauðrófur

750 g græn epli

2 laukar

600 ml edik

1 tsk. salt

Sítrónusafi (úr ½ sítrónu)

250 g sykur



Rauðrófur soðnar uns mjúkar, kældar, afhýddar og skornar í teninga. Epli og laukur skorið smátt og soðið í ediki með salti, sykri og sítrónu í 20 mínútur. Þá er rauðrófuteningunum bætt út í og soðið í 15 mínútur í viðbót. Sett heitt í hreinar, heitar krukkur, lokað og kælt.

Gamla uppskriftin sem hefur fylgt Ragnhildi í fjörutíu ár.

Rauðrófusúpa

„Þegar við bjuggum á Akureyri fyrir 20 árum fylltist ég aðventublús þegar ég las jólablöð dagblaðanna og sá hvað það var gaman hjá öllum nema mér. Ég eldaði rauðrófusúpu og bauð góðum vinum í hádegisverð í „hið árlega jólaboð mitt“. Þeir hafa síðan haldið þessum sið og skála alltaf fyrir okkur. Ég veit ekki hvort þau elda enn súpuna sem ég bauð upp á en hér er uppskriftin.

Rússnesk súpa ættuð frá Lenu Bergmann

1 rauðrófa, sama magn af hvítkáli, 1 laukur, 4 hvítlauksrif – allt rifið niður.



Sett í pott auk einnar dósar af tómatmauki, 2 msk. olía og smá vatn. Látið malla í 20-30 mín á vægum hita. Þá þynnt með sjóðandi vatni; grænmetiskrafti, lárviðarlaufi, pipar og tabasco-sósu bætt við.

Soðið í 15 til 20 mín. Þeyttur rjómi eða sýrður rjómi borinn fram með súpunni.

„Ég var alin upp við rjúpur á jólunum. Undanfarin ár höfum við breytt þeirri hefð og stundum haft heitt hangikjöt sem mér finnst mjög gott. Annars hef ég ekki haldið í hefðir á aðfangadag og dætur mínar munu ekki minnast ákveðinna siða um jólin,“ segir hún.

„Ég er óhrædd við breytingar en skreyti þó alltaf jólatréð á Þorláksmessu.“








×