Innlent

Bjartsýnn á að geta dregið uppsagnir til baka

Sighvatur Jónsson skrifar
Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, er bjartsýnn á að geta dregið uppsagnir ríflega 200 starfsmanna til baka í ljósi frétta af aðkomu Indigo Partners að rekstri WOW air.

„Við þurfum að sjá að WOW air og Indigo Partners nái saman. Um leið og búið er að loka því getum við hafist handa við að draga þær uppsagnir til baka sem við getum og það verður klárlega meiriparturinn af þeim sem við sögðum upp.“

Bjartsýnn eins og Skúli

Aðspurður hvort allar uppsagnir verði dregnar til baka segir Sigþór að það fari eftir endanlegri stærð WOW air að afloknum viðskiptunum, það er hvort floti félagsins muni minnka eða haldast óbreyttur. Hann segist vera bjartsýnn á að málið leysist farsællega fyrir starfsmenn Airport Associates.

„Já, ég segi eins og Skúli Mogensen, ég er alltaf bjartsýnn.“

Airport Associates þjónustar WOW air og stærstan hluta þeirra erlendu flugfélag sem fljúga um Keflavíkurflugvöll. Vinnustaðurinn er einn sá fjölmennasti á Suðurnesjum. Um 700 manns unnu þar þegar mest var síðastliðið sumar. Í gær var tilkynnt um uppsagnir 237 starfsmanna fyrirtækisins vegna óvissu um framtíð WOW air.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×