Enski boltinn

Robbie Fowler: Liverpool þarf að fara vinna titla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robbie Fowler og Jürgen Klopp.
Robbie Fowler og Jürgen Klopp. Vísir/Samsett/Getty
Robbie Fowler, einn mesti markaskorarinn í sögu Liverpool, segir að það sé ekki nóg fyrir félagið að stefna bara á sæti meðal fjögurra efstu því að hans mati þarf Liverpool að fara vinna titla undir stjórn Jürgen Klopp.

Liverpool er eins og er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar tveimur stigum á eftir toppliði Manchester City en hvorugt liðið hefur tapað deildarleik í vetur. Sömu sögu er að segja af Chelsea í þriðja sætinu.

Chelsea sló Liverpool út úr enska deildabikarnum og er í harðri baráttu í æsispennandi riðli í Meistaradeildinni. Það er einn titill því þegar farinn og liðið þarf líka að passa sig í Meistaradeildinni.

Jürgen Klopp tók við sem stjóri Liverpool árið 2015 en liðið hefur enn ekki unnið titil undir hans stjórn. Úrslitaleikurinn á móti Real Madrid síðast vor var þriðji úrslitaleikurinn sem Liverpool tapar í stjóratíð Klopp.

„Markmiðið er að komast eins ofarlega í töflunni og mögulegt er. Eins mikið og við tölum um þetta ótrúlega lið Liverpool sem gaman er að horfa á spila þá kemur alltaf að þeim tímapunkti þegar lið þarf að fara að vinna titla,“ sagði Robbie Fowler við The Debate á Sky Sports.

„Að mínu mati er Jürgen Klopp búinn að setja saman frábært lið en eitt af stóru vandamálunum er að lið Manchester City er bara stórkostlegt. Þú getur sett saman frábært lið en nú verða menn að reyna að ná aftur City-liðinu og hanga síðan í þeim til loka,“ sagði Fowler.

„Ég er ekki einn af þessum stuðningsmönnum sem fagnar því að ná fjórða sætinu. Því ættu bara stjórnarformaðurinn eða eigandinn að fagna. Frá mínum bæjardyrum séð þá væri þar verið að fagna meðalmennskunni. Ég vildi alltaf vinna titla,“ sagði Fowler.

„Ég vil að fólk muni frekar eftir mér fyrir þá titla sem ég vann frekar fyrir í hvaða sæti ég endaði í deildinni. Ég skil samt af hverju félögin vilja vera með þeirra fjögurra efstu en mér finnst líka að félag eins og Liverpool eiga alltaf að vera meðal fjögurra efstu hvort sem er,“ sagði Fowler.

Robbie Fowler vann fimm titla með Liverpool á sínum ferli en hann skoraði alls 183 mörk fyrir Liverpool þar af 128 þeirra í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×