Erlent

Hafnar forsæti hæstaréttar vegna skilaboðaleka Lýðflokksmanns

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Manuel Marchena hæstaréttardómari sést hér á miðri mynd. Fréttablaðið/EPA
Manuel Marchena hæstaréttardómari sést hér á miðri mynd. Fréttablaðið/EPA Fréttablaðið/EPA
Manuel Marchena, spænskur hæstaréttardómari, hefur hafnað því að taka við embætti forseta hæstaréttar og spænska dómskerfisins alls. Sósíalistaflokkurinn, sem er í minnihlutastjórn, og Lýðflokkurinn, langstærsti flokkur stjórnarandstöðu, höfðu samið um að hann fengi sætið og var það samkomulag hluti samkomulags um skipan í embætti innan dómskerfisins.

Ákvörðunina tók Marchena eftir að spænskt vefrit lak WhatsApp-skilaboðum Ignacios Cosidó, þingflokksformanns Lýðflokksins í öldungadeildinni, þar sem fram kom að með samkomulagsgerðinni fengi flokkurinn völd yfir dómskerfinu og gæti stýrt sakamáladeild hæstaréttar úr bakherbergjunum.

Aðskilnaðarsinnar í Katalóníu gagnrýndu skilaboðin harðlega enda eru níu þeirra nú í fangelsi, ákærðir fyrir uppreisnaráróður og uppreisn gegn spænska ríkinu, og með mál fyrir sakamáladeildinni á meðan Lýðflokkurinn beitti sér af hörku gegn aðskilnaðarsinnum. Flokkurinn var við völd síðasta haust þegar Katalónarnir voru handteknir eftir ólöglega atkvæðagreiðslu og sjálfstæðisyfirlýsingu.

Marchena sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér að hann hafi aldrei litið svo á að dómskerfið ætti að vera verkfæri sem stjórnmálamenn geta nýtt sér og sagðist vera sjálfstæður í störfum. En Marchena mun þó áfram stýra sakamáladeild hæstaréttar, líkt og undanfarin ár.

Sex þeirra níu Katalóna sem eru í haldi sendu hæstarétti bréf í gær þar sem þess var krafist að Marchena myndi víkja úr því embætti. Hann var sakaður um hlutdrægni í garð Lýðflokksins og Sósíalistaflokksins og hreykti Cosidó sér af skipan hans.

Pedro Sánchez forsætisráðherra sagðist í gær harma ákvörðun March­ena.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×