Körfubolti

Bíða enn eftir fyrsta sigrinum í undankeppninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir í leiknum gegn Slóvakíu.
Hildur Björg Kjartansdóttir í leiknum gegn Slóvakíu. Fréttablaðið/Eyþór
Íslenska kvennalandsliðið mætir Bosníu í Laugardalshöllinni í síðasta leik sínum í undankeppni EM 2019 í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:45.

Ísland hefur tapað öllum fimm leikjum sínum í A-riðli með samtals 130 stigum. Á laugardaginn lutu Íslendingar í lægra haldi fyrir Slóvökum, 52-82, í næstsíðasta leik sínum í undankeppninni.

Sóknarleikurinn hefur verið höfuðverkur Íslendinga í undankeppninni. Ísland hefur aðeins skorað 280 stig, eða 56 stig að meðaltali í leik. Í síðustu tveimur leikjum hefur íslenska liðið einungis skorað 37 og 52 stig. Aðeins fimm lið hafa skorað minna en Ísland í undankeppni EM.

Bosnía vann fyrri leikinn á móti Íslandi í Sarajevó með þrjátíu stiga mun, 97-67. Helena Sverrisdóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 32 stig. Þær Hildur Björg Kjartansdóttir skoruðu 48 af 67 stigum Íslands í leiknum. Þær hafa skorað bróðurpartinn af stigum Íslands í undankeppninni.

Ísland hefur tapað síðustu átta leikjum sínum. Síðasti sigurinn kom í vináttulandsleik gegn Írlandi í júní 2017, 69-63.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×