Lífið

Hljóp 400 kílómetra í Gobi eyðimörkinni: „Geta þetta allir“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Elísabet Margeirsdóttir hljóp 400 kílómetra í Gobi-eyðimörkinni.
Elísabet Margeirsdóttir hljóp 400 kílómetra í Gobi-eyðimörkinni.
Ofurhlauparinn Elísabet Margeirsdóttir er þegar byrjuð að huga að næstu áskorun eftir að hafa lokið Ultra Gobi 400 hlaupinu í október, þar sem hún hljóp rúma 400 kílómetra á aðeins fjórum sólarhringum.

Landsmenn fylgdust grannt með framvindu mála hjá Elísabetu meðan á hlaupinu stóð, en hún segir þennan mikla áhuga í raun hafa komið sér á óvart. Á allri þessari leið kom aldrei upp í hugann að gefast upp, en hún viðurkennir þó að vissir kaflar hafi tekið mikið á – þá sérstaklega þegar hlaupið var yfir skarð í um fjögur þúsund metra hæð.

„Þetta er strategía og þú verður að hafa eitthvað plan. Þetta er rosalega löng vegalengd og það er eiginlega ómögulegt að gera þetta án þess að hvíla sig eitthvað og sofa eitthvað smá,“ segir Elísabet í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.

Allt frosið

„Ég var svo flott að fara yfir hæsta punktinn yfir hánóttu. Það var rosalega kalt í þessari hæð og þá t.d. fraus allt vatnið í brúsanum. Allur maturinn og orkan sem ég var með var orðin svo grjóthörð að það var ekkert hægt að borða,“ segir Elísabet og bætir við að tíu stórar hvíldarstöðvar hafi verið á leiðinni þar sem hún gat aðeins kastað mæðinni og gert það sem hún þurfti að gera, eins og að skipta um föt og fleira.

Hlaupið var oft á tíðum mjög erfitt og reyndi mikið á andlega.
Kom aldrei tími þar sem hana langaði bara að gefast upp?

„Alls ekki, sem er pínulítið skrýtið því ég hef oft upplifað þannig í hlaupum. Í þessu var undirbúningurinn það góður og ég hafði sett heilmikla pressu á sjálfan mig. Þetta var stórt markmið og ég ætlaði að ná þessu. Þessar erfiðu stundir gera í raun og veru hlaupið, þetta snýst um að komast í gegnum þessar erfiðu stundir.“

Þrátt fyrir að hvíldarstöðvarnar hafi verið tíu þá svaf Elísabet aðeins í rúmar fjórar klukkustundir á leiðinni.

„Ef þú ætlar að stoppa þá er best að vera í sitjandi eða liggjandi stöðu til að fá sem mest út úr hvíldinni. Það var heilmikið af starfsfólki á stöðunum og maður reyndi að nýta sér það sem mest. Svo komu upp nokkur skipti þar sem ég fór inn í svefnpoka og reyndi að detta út í hálftíma.“

Hvað borðar maður á fjögurra daga stanslausu hlaupi?

„Ég þurfti að koma með allan mat sjálf að heiman og ég var með tíu kíló af orku með mér. Ég borðaði bara brot af því, af því að matarlystin hún minnkar rosalega við svona áreynslu. Maður reynir að gera þetta eftir bókinni en í svona aðstæðum gerir maður bara eins og maður getur. Ég var fyrst og fremst að borða svona hrísgrjónarétti, þurrmat, kanilsnúða, kex, súkkulaði, svona allt þetta holla og góða.“

Umhverfið í Gobi eyðimörkinni er harðneskjulegt, breytingar miklar og hitasveiflurnar gríðarlegar. Sjóðheitt á daginn og ískalt á nóttinni.

„Ég var búin að sjá myndir og reyndi að ímynda mér þetta eins og ég gat og sá mig fyrir að hlaupa þetta alveg frá byrjun til enda. Þetta var rosalega flott og rosalega ólíkt öllu sem ég hef séð. Það gerði þetta líka ofboðslega skemmtilegt. Það er allt annað en að vera hlaupa sama hringinn kannski fjörutíu sinnum.“

Þarft ekki að vera ofurmenni

Þrátt fyrir að hafa eytt síðustu vikum að einhverju leyti í að ná sér niður eftir afrekið er hún strax byrjuð að huga að næstu áskorun, einhverju jafnvel stærra en Gobi-hlaupinu. Elísabet segir mikið fagnaðarefni hve mikil vitundarvakning hafi orðið um hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl undanfarið, en ítrekar mikilvægi þess að fara ekki of hratt af stað. Aftur á móti þvertekur hún fyrir að ofurhlaup á borð við það sem hún lauk í Kína sé aðeins á færi einhvers konar ofurmenna.

„Ef fólk vill gera svona hluti og fer réttu leiðinni að því þá geta þetta allir. Þetta snýst um rétta markmiðasetningu. Þetta tekur tíma að komast á þann stað að finnast eðlilegt að fara í fjögur hundruð kílómetra hlaup.“

Í dag er hún með mörg járn í eldinum, búin að ná sér niður eftir hlaupið og farin að huga að næstu áskorun. Auk þess er hún aðjúnkt í næringarfræði við Háskóli Íslands og heldur fyrirlestra þar sem hún hvetur fólk til dáða, hver sem markmiðin eru. Rætt var við Elísabetu í Íslandi í dag í gærkvöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×