Skoðun

Samhengi í bók Birgittu

Hallgrímur Óskarsson skrifar
Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu höfundar og fékk Vísir leyfi til endurbirtingar



Nú er mikið kvartað yfir því að hin geðþekka Birgitta Haukdal hafi ritað á einum stað starfsheitið „hjúkrunarkona“ í stað þess að nota „hjúkrunarfræðingur“. Það er auðvitað gott að minna á rétta útgáfu starfsheita og að notkun orða feli ekki í sér kynjahalla. En á síðustu misserum og árum hafa komið út bækur, tímarit og dagblöð þar sem orðið „hjúkrunarkona“ hefur verið notað ítrekað án þess að nokkur hafi fundið að. Dæmi eru í Útkalls-bókum Óttars Sveinssonar en engin umræða eða gagnrýni var á verk Óttars þrátt fyrir að ein bókin noti þetta orð mjög oft og hafi notað orðið til að auglýsa bókina. Blaðamenn allra stóru dagblaðana (FBL, MBL, DV) nota enn orðið „hjúkrunarkona“ af og til (þótt hitt orðið sé auðvitað meira notað) og ekki hef ég séð amast við því. Orðið „hjúkrunarkona“ finnst einnig oft í Læknablaðinu og í sjálfu höfuðvígi hjúkrunarfræðinga, Tímariti hjúkrunarfræðinga og enga gagnrýni hef ég séð á það. En þegar Birgitta notar orðið einu sinni þá verður mikill æsingur. Hvað ætli valdi þessum mun í viðbrögðum eftir því hver á í hlut?

Viggo Mortensen hinn geðþekki danski leikari lenti í keimlíkum viðbrögðum þegar hann notaði hið bannaða enska „N“-orð á dögunum. Hann notaði samt orðið í afar jákvæðu samhengi; sagði að ýmsir góðir áfangasigrar hefðu átt sér stað í baráttu blökkufólks í Bandaríkjunum, t.d. að nær enginn þori að nota N-orðið nú á dögum. En samhengið er hætt að skipta máli, allir hrópuðu upp að Viggo hafi sagt orðið sem enginn má segja („...Viggo Mortensen just dropped the N Word and the oxygen immediately left the room.“ var sagt á Twitter og Guardian birti grein um málið). Ekkert tillit tekið til samhengis, engin sanngirni, bara hrópað hátt í von um læk og athygli.

Hugsum aðeins meira um merkingu og samhengi orðanna, hættum að dæsa og fyllast af yfirlætisfullri vandlætingu ef einhver notar orð sem annar segir að megi ekki segja. Lífið má ekki enda sem ein risastór dæs-keppni. Gagnrýnum ef samhengið og mótívasjónið sem á baki liggur leyfir okkur gagnrýni en hættum vandlætingarsemi, því í einhverjum tilvikum kann slíkt að vera leit að athygli - að vilja vera sá sem bendir á hinn svarta blett. Eða, ef við ætlum að gagnrýna svona bókstafslega þá verður að vera samræmi. Ekki taka bara Birgittu fyrir af því hún er fræg söngkona - taka hina fyrir líka, tala almennt um málið. Því þó að máttur Birgittu sé mikill þá mun notkun hennar í eitt skipti á hinu fallega en ögn gamaldags orði ekki hafa nein áhrif á neikvæða kynjun þessa mikilvæga starfs. Birgitta sjálf hefur útskýrt málið vel og brugðist með leiðréttingu en aðrir hafa ekki verið beðnir um að framkvæma slíkt hið saman á sínum verkum, greinum og öðru opinberu efni.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×