Íslenski boltinn

Arnar: Það sem virkar ekki fyrir leikmenn það mun ég ekki reyna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Víkingur hefur ekki riðið feitum hesti í sínum fyrstu leikjum undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar sem tók við Fossvogsliðinu á haustdögum af Loga Ólafssyni.

Víkingur tapaði 8-2 í fyrsta leik með Arnar í stjórastólnum gegn KR og í gærkvöldi tapaði svo liðið 5-0 fyrir Stjörnunni en báðir leikirnir eru í Bose-mótinu. Hvar þarf Arnar helst að styrkja liðið?

„Ef þú tapar 8-2 og 5-0 þá eru vel flestar stöður sem þarf að fara yfir en við þurfum breiðari hóp. Það er stefnan hjá okkur,“ sagði Arnar í samtali við Ríkharð Óskar Guðnason.

„Við munum fá tvo til þrjá erlenda leikmenn. Við erum búnir að skoða það vel og vandlega og fylla upp í skarðið með fjórum til fimm íslenskum leikmönnum.“

Arnar hefur oft lýst aðdáun sinni á sókndjörfum fótbolta sem einkennist af mikilli pressu en verður það upp á teningnum næsta sumar hjá Víkingum?

„Aðal áskorunin mín verður að kyngja stoltinu. Mig langar að spila vissa tegund af fótbolta og ég er hrifinn af Guardiola, Klopp og þessum sem eru að gera fótboltann hvað skemmtilegastan.“

„En að kyngja stoltinu þá á ég við að það sem virkar ekki fyrir leikmenn það mun ég ekki reyna. Ég mun eyða tíma í að finna réttu aðferðina sem ég tel að henti leikmönnum,“ sagði Arnar og bætti við að lokum:

„Ef þú hefur sex mánuði til stefnu og ég sé að hún er ekki að vinna eftir fjóra til fimm mánuði þá mun ég ekki halda því til streitu. Ég verð að kyngja stoltinu á vissum sviðum og reyna að spila árangursríkan fótbolta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×