Erlent

Ummæli um „Obama dómara“ fóru öfugt ofan í forseta Hæstaréttar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Trump og Roberts þann 20. janúar 2017 þegar Trump tók við embætti forseta. Það er hlutverk forseta Hæstaréttar að láta forsetann sverja embættiseið.
Trump og Roberts þann 20. janúar 2017 þegar Trump tók við embætti forseta. Það er hlutverk forseta Hæstaréttar að láta forsetann sverja embættiseið. Getty/Alex Wong
John Roberts, forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna, var harðorður í garð Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir að Trump gagnrýndi alríkisdómara í Kaliforníu.

Sagði Trump að dómari sem úrskurðaði um að stjórnvöld mættu ekki hafna umsóknum flóttafólks um hæli hefði það komið ólöglega til Bandaríkjanna, væri „Obama dómari.“ Dómarinn sem um ræðir starfar við áfrýjunardómstól í Kaliforníu, sem hefur verið mikið á milli tannanna á Trump, eða 9th circuit.

Afar sjaldgæft er að forseti Hæstaréttar tali opinberlega gegn sitjandi forseta og er þetta í fyrsta sinn sem Roberts hefur á nokkurn hátt gagnrýnt Trump, sem hefur í tíð sinni verið gjarn á að tala gegn dómurum, sérstaklega ef innflytjendastefna hans er talin ólögmæt.

Sagði Roberts að í Bandaríkjunum væri hvergi að finna „Obama dómara, eða Trump dómara, Bush dómara eða Clinton dómara,“ í yfirlýsingu sem hæstiréttur sendi frá sér eftir fyrirspurn frá AP.

Sagði Roberts að í Bandaríkjunum væri hins vegar að finna einstakan hóp duglegra dómara sem gerðu sitt besta til að fá réttlætinu fullnægt og að sjálfstæðir dómstólar væru eitthvað sem allir Bandaríkjamenn mættu þakka fyrir. Sjálfur hefur Roberts verið forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna frá árinu 2005. Hann var tilnefndur af George W. Bush og er almennt talinn hluti af íhaldssömum armi dómsins.

Ummæli Roberts fóru öfugt ofan í forsetann sem brást við ummælum Roberts á Twitter í dag. Sagði forsetinn að það væri víst að finna „Obama dómara“ í Bandaríkjunum. 

„Og þeir eru með aðrar skoðanir en fólkið sem tryggir öryggi landsins okkar.“

 

Sagði hann að það væri frábært ef dómstóllinn í Kaliforníu væri sjálfstæður dómstóll, en gaf því undir fótinn að svo væri ekki vegna fjölda innflytjenda mála sem dómurinn sneri við.

„Vinsamlegast kannaðu tölurnar. Þær eru hneykslanlegar. Við þurfum vernd og öryggi, þessir dómar gera landið okkar óöruggt! Mjög hættulegt og óskynsamlegt!“

Washington Post hefur tekið saman dæmi þar sem Trump hefur gagnrýnt ákvarðanir dómstólsins í Kaliforníu og kannað hve mikið af þeim á sér stoðir í raunveruleikanum. Lesa má umfjöllunina hér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×