Bakþankar

Besta núvitundin

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar
Ég rannsakaði skrif um núvitund í nótt, eftir að ég hafði hengt upp Georg Jensen jólaóróana, gúglað skápa í fataherbergið sem er í vinnslu og í leiðinni rekist á spennandi uppskrift að indversku linsu dahl (og þurfti þá að raða í kryddhilluna í leit að túrmerik). Ég sat við tölvuna og var reyndar að byrja á pistli. Skilafresturinn að nálgast en það er lögmál allra skilafresta að þeir framkalla keppniskraft við að teikna plön, flokka og ekki síst við vandaðar rannsóknir á netinu. Nýfundinn tölvupóstur (við tiltekt í pósthólfinu) leiddi til bakgrunnsrannsókna á höfundi póstsins. Á Facebook sá ég að hún borðaði humar í eplarjómasósu í forrétt á aðfangadag 2015. Kannski væri lag að prófa eplarjómasósu? Og af hverju er ristað brauð alltaf skorið í þríhyrning á jólunum?

Það gat borgað sig fyrir skrifin að horfa aftur á viðtalið við Heimi Hallgríms hjá Loga. Heimir leggst nefnilega í bað þegar hann er að skipuleggja sig, alveg eins og ég. Ég bjó til nýjan lagalista, skrifin flæða örugglega við Let the River Run og dálítið passandi að kona pikkföst í núvitund noti lag úr Working Girl. Á YouTube rakst ég reyndar líka á uppáhaldssketsana með Monty Python. Hellti upp á Kosta Ríka kaffi sem tendrar fólk til að gera betur í lífinu. Er plastbann leiðin til að gera betur í lífinu? hugsaði ég þá og las mér til um hvort plastið sé raunverulega eitt og sér að eyða heiminum.

Netrannsóknir segja að hamingja sé núvitund. Að þessu leyti lifi ég sterkt í núinu, ég geri það sem ég þarf að gera þegar þess þarf. Sterkasta núvitundin er svo þegar skilafresturinn skríður um æðarnar. Og tölvupósturinn sendur.






×