Enski boltinn

Drogba staðfestir að hann sé hættur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Drogba fagnar meistaratitli með Chelsea ásamt þeim John Terry og Eiði Smára Guðjohnsen.
Drogba fagnar meistaratitli með Chelsea ásamt þeim John Terry og Eiði Smára Guðjohnsen. vísir/getty
Eins og við var búist hefur Didier Drogba lýst því formlega yfir að hann sé hættur í fótbolta. Kappinn er orðinn fertugur.

Bestu ár Drogba voru í búningi Chelsea þar sem hann skoraði 164 mörk í 381 leik. Hann varð fjórum sinnum enskur meistari og var í liði Chelsea sem vann Meistaradeildina árið 2012.

Síðustu 18 mánuði hefur hann spilað með bandaríska liðinu Phoenix Rising en hann er einn af eigendum félagsins.

„Þetta voru góð 20 ár en nú er ég hættur. Ég hætti á réttum forsendum og náði að gefa af mér til yngri leikmanna áður en ég hætti. Það er nauðsynlegt að gefa til baka,“ sagði Drogba.

Framherjinn frá Fílabeinsströndinni sprakk frekar seint út en hann spilaði ekki fótbolta í efstu deild fyrr en hann var 23 ára gamall. Þá var hann keyptur af úrvalsdeildarliðinu Guingamp. Hann fór svo til Marseille átján mánuðum síðar.

Þar var hann aðeins í eitt ár áður en hann var keyptur til Chelsea. Hjá enska félaginu stimplaði hann sig inn sem einn besti framherji heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×