Erlent

Fordæma fangelsun blaðamanna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Dómnum yfir blaðamönnunum hefur verið harðlega mótmælt.
Dómnum yfir blaðamönnunum hefur verið harðlega mótmælt. Nordicphotos/AFP

Samtök bæði lögfræðinga og blaðamanna í Mjanmar afhentu Win Myint, forseta ríkisins, bréf í gær þar sem lýst var áhyggjum af sakfellingu og fangelsun tveggja blaðamanna Reuters. Þeir Wa Lone og Kyaw Soe Oo voru dæmdir til sjö ára fangelsisvistar fyrir brot á lögum um ríkisleyndarmál. Blaðamennirnir höfðu verið að vinna umfjöllun um stríðsglæpi mjanmarska hersins gegn þjóðflokki Róhingja.

Nánar tiltekið snerist umfjöllunin um morð á tíu Róhingjum og leiddi rannsókn blaðamannanna í ljós að jafnt hermenn sem almennir borgarar hafi þar verið að verki. Alls flúðu 720.000 Róhingjar til Bangladess þegar aðgerðir hersins stóðu yfir í Rakhine-ríki Mjanmar. Rannsakendur á vegum SÞ hafa sakað herforingja um þjóðarmorð en saga ofsókna gegn Róhingjum er áratugalöng.

„Ríkisleyndarmálalöggjöfin var sett til þess að fyrirbyggja njósnir á sínum tíma. Hún er ekki viðeigandi í nútímanum og þarfnast endurskoðunar. Sjö ára dómur yfir blaðamönnunum er alvarleg tálmun við starf fjölmiðla og rétt almennings á upplýsingum,“ sagði í bréfinu. Þar sagði enn fremur að umfjöllun blaðamannanna hafi átt skýrt erindi við almenning og að báðar hliðar málsins hefðu komið skýrt fram.

Win Myint forseti sagði, er hann fékk bréfið, að hann þyrfti að skoða málið í samhengi við landslög. Málinu var áfrýjað til hæstaréttar fyrr í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×