Erlent

Tugir fórust í sjálfsmorðsárás

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hermaður fær aðhlynningu eftir sprengjuárásina.
Hermaður fær aðhlynningu eftir sprengjuárásina. Nordicphotos/AFP
Að minnsta kosti 26 fórust og 50 særðust þegar sjálfsmorðsárásarmaður sprengdi sig í loft upp í mosku á herstöð í Khost-fylki Afganistans í gær. Reuters greindi frá þessu og hafði eftir embættismönnum á svæðinu. Öll hin föllnu voru starfsmenn afganska hersins að því er höfuðsmaður að nafni Abdull­ah sagði við fréttavefinn.

Enginn hafði lýst yfir ábyrgð á árásinni í gærkvöldi. Þó er ljóst að talíbanar hafa ráðist gegn afgönskum hermönnum af krafti á síðustu vikum í von um að koma ríkisstjórninni frá völdum og hermönnum vestrænna ríkja úr landi. Þannig hafa hundruð farist, herstöðvar verið eyðilagðar og vopn hirt í áhlaupum talíbana.

Einungis þrír dagar voru liðnir í gær frá því að sjálfsmorðsárás var gerð á ráðstefnu afganskra klerka í höfuðborginni Kabúl. Klerkarnir höfðu safnast saman til þess að fagna afmæli Múhameðs spámanns. Um þúsund voru á ráðstefnunni en að sögn embættismanna fórust 55. Þá særðust 90 til viðbótar.

Talíbanar neituðu því að hafa borið ábyrgð á þeirri árás og engin önnur hreyfing lýsti yfir ábyrgð. Ekki er hægt að útiloka að hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) hafi gert árásina en þau hafa ítrekað ráðist á Kabúl að undanförnu. – þea




Fleiri fréttir

Sjá meira


×