Erlent

Frumsýnir hvolpana sem Kim gaf

Andri Eysteinsson skrifar
Kim gaf Moon hundana Gomi og Songgong. Gomi reyndist þunguð og hefur nú gotið.
Kim gaf Moon hundana Gomi og Songgong. Gomi reyndist þunguð og hefur nú gotið. EPA/ Pyongyang Press Corps
Moon Jae-in forseti Suður-Kóreu er óvænt orðinn eigandi hundastóðs. Moon fékk nýverið tvo Punsang veiðihunda að gjöf frá kollega sínum, Kim Jong-un.

Tíkin Gomi gaut óvænt sex hvolpum og því stækkar og stækkar gjöf Norður-Kóreu. Fyrir átti Moon annan hund. Bláa húsið í Seoul, bústaður forseta, frumsýndi hvolpana á Twitter í dag. BBC greinir frá.

„Meðgöngutími hundanna er tveir mánuðir, því hlýtur Gomi að hafa verið þunguð þegar hún kom til okkar“, stendur í færslunni. Hvolparnir voru eins og áður sagði sex talsins, þrír rakkar og þrjár tíkur.

Suður-Kórea þakkaði fyrir hvolpana með því að fljúga herflugvélum, fullum af mandarínum til Pyongyang, höfuðborgar Norður-Kóreu.

Samband leiðtoga ríkjanna tveggja virðist vera gott en þeir hafa á árinu hist í þrígang. Í september síðastliðnum varð Moon fyrsti leiðtogi Suður-Kóreu til að ávarpa Norður-Kóreskan almenning, það gerði hann fyrir framan 150.000 gesti Airang-leikanna.

Hundurinn Gomi var einn af tveimur Punsang hundum sem Kim færði Moon að gjöf, einnig var gefinn hundurinn Songgang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×