Erlent

Á annað hundrað grindhvala drápust á Nýja-Sjálandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Grindhvalirnir í Mason-flóa á Stewart-eyju í gær.
Grindhvalirnir í Mason-flóa á Stewart-eyju í gær. Vísir/AP
Um 145 grindhvalir strönduðu og drápust á Stewart-eyju á Nýja-Sjálandi. Göngumaður gekk fram á hræin á laugardag. Um helmingur dýranna voru þegar dauð en yfirvöld lóguðu hinum þar sem aðstæður gerðu nær ómögulegt að bjarga þeim.

Tvær vöður hvalanna strönduðu á um tveggja kílómetra kafla afskekktrar strandar á Stewart-eyju sem liggur undan strönd Suðureyju Nýja-Sjálands. Ekki er vitað hvers vegna hvalirnir syntu upp á land. Náttúruverndarstofnun svæðisins segir að um 85 tilvik eigi sér stað í landinu á hverju ári. Yfirleitt strandi aðeins eitt dýr, ekki heilu vöðurnar.

Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC fundust einnig tólf dverghvalir strandaðir á norðurodda Norðureyju Nýja-Sjálands um helgina. Fjórir þeirra drápust en vonir standa til að hægt verði að bjarga hinum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×