Innlent

Nóvember kveður á vetrarlegum nótum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Gul viðvörun er í gildi á morgun og fimmtudag víða á landinu.
Gul viðvörun er í gildi á morgun og fimmtudag víða á landinu. Vísir/Hanna
Víða er spáð þokkalegu veðri í dag en allhvasst eða hvasst allra syðst. Gengur í austan og norðaustan hvassviðri og storm á morgun. Rigning SA-til, slydda á Austfjörðum, þurrt að kalla um landið Suðvestanvert, en annars snjókoma eða él og víða skafrenningur.

Ekki er gert ráð fyrir að veðrið gangi niður fyrr en á föstudag og því útlit fyrir að nóvember ætli að kveðja á vetrarlegur nótum. Þeir sem hyggja á ferðalög eru beðnir að fylgjast náið með fréttum af færð og veðri því viðbúið er að samgöngur muni spillast. Gul viðvörun er í gildi á morgun og fimmtudag á Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi, Austfjörðum og Suðausturlandi.

Veðurhorfur á landinu

Austan 5-13 m/s, en 13-18 undir Eyjafjöllum í dag. Stöku skúrir eða él Sunnanlands og með austurströndinni, en annars hægari og bjartviðri. Hiti víða 0 til 5 stig, en frost 0 til 10 stig norðan heiða.

Hvessir í nótt og á morgun, NA 15-23 síðdegis á morgun og hvassari á stöku stað. Þurrt suðvestantil, rigning um landið SA-vert og slydda á Austfjörðum, en annars víða snjókoma eða él með skafrenning. Minnkandi frost á morgun og hiti 0 til 7 stig sunnantil, mildast Suðaustanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Vaxandi norðaustanátt, 13-20 m/s síðdegis, en hvassari um kvöldið. Slydda eða snjókoma norðan og austanlands, rigning á Austfjörðum og Suðaustanlands, en annars þurrt að kalla. Vægt frost norðan og vestantil, annars 0 til 7 stiga hiti, mildast á Suðausturlandi.

Á fimmtudag:

Hvöss norðaustanátt og snjókoma um landið N-vert, rigning eða slydda A-lands en annars úrkomulítið. Hiti breytist lítið.

Á föstudag:

Minnkandi norðanátt og snjókoma, en síðar él á N-verðu landinu, en lengst af úrkomulaust syðra. Frost um allt land.

Á laugardag, sunnudag og mánudag:

Breytileg átt, él og fremur kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×