Erlent

Trump íhugar að aflýsa fundi með Pútín vegna hertöku skipanna

Sylvía Hall skrifar
Frá fundi Trump og Pútín í Helsinki.
Frá fundi Trump og Pútín í Helsinki. Getty/Chris McGrath
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist íhuga að aflýsa fundi sínum og Vladímírs Pútín Rússlandsforseta á G20 ráðstefnunni í Argentínu síðar í mánuðinum vegna hertöku Rússa á þremur skipum sjóhers Úkraínu. Þetta kemur fram í viðtali við forsetann í The Washington Post.

Skipin voru hertekin undan strönd Krímskaga þegar þau voru á leið til Asovshafs í gegnum Kerch-sundið. Trump segist bíða skýrslu frá öryggisráðgjöfum sínum vegna málsins en sjóliðar skipanna þriggja eru enn í haldi Rússa. Hann segir skýrsluna skera úr um hvort hann muni funda með Pútín.

„Kannski mun ég aflýsa fundinum. Mér líkar ekki við slíka árásargirni,“ sagði Trump í viðtali við Washington Post.

Áætlað er að fundur forsetanna fari fram á G20-ráðstefnunni í Buenos Aires í Argentínu sem hefst á föstudag. Að sögn Johns Bolton, þjóðaröryggisráðgjafa Trump, munu forsetarnir ræða öryggismál, vopnamál og málefni Mið-Austurlanda og Úkraínu á fundinum.  


Tengdar fréttir

Ólga eftir árás á Asovshafi

Úkraínska þingið samþykkti í gær tilskipun forseta landsins um setningu herlaga eftir að Rússar skutu á og hertóku þrjú úkraínsk herskip. Átök landanna tveggja eru ekki ný af nálinni en fara nú harðnandi.

Rússar vara við auknum átökum vegna herlaga

Yfirvöld Rússlands segja að herlög í Úkraínu muni leiða til aukinna átaka í austurhluta landsins þar sem aðskilnaðarsinnar, sem Rússar styðja, hafa tekið stjórnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×