Innlent

Stormur eða hvassviðri á landinu öllu seinnipartinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Svipað veður á morgun og gera spár ekki ráð fyrir að dragi úr vindi og úrkomu fyrr en seint á morgun og föstudag.
Svipað veður á morgun og gera spár ekki ráð fyrir að dragi úr vindi og úrkomu fyrr en seint á morgun og föstudag. Vísir/Vilhelm
Norðaustan átt mun sækja í sig veðrið í dag og verður hvassviðri eða stormur á öllu landinu seinnipartinn. Fram kemur á Veðurstofu Íslands að um landið norðanvert megi búast við að úrkoman sem með vindinum fylgir verði í formi snjókomu, en slyddu eða jafnvel rigningu á Austfjörðum.

Á Suðausturlandi verður rigning á köflum, úrkomumeira austan Öræfa á meðan þurrt verður að mestu sunnan- og vestanlands. Hiti um og undir frostmarki fyrir norðan en 0 til 7 stiga hiti syðra, mildast við suðausturströndina.

Svipað veður á morgun og gera spár ekki ráð fyrir að dragi úr vindi og úrkomu fyrr en seint á morgun og föstudag. Þokkalegt veður víðast hvar um helgina en él í flestum landshlutum og frost.

Fremur líklegt er að færð muni spillast fram á föstudag, einkum á fjallvegum fyrir norðan og austan og ætti fólk sem hyggur á ferðir milli landshluta að fylgjast vel með fréttum að veðri og færð.

Er gul viðvörun í gildi fyrir landið allt, en hún tekur fyrst í gildi á hádegi á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Austfjörðum og Suðausturlandi. Klukkan 17 verður gul viðvörun komin í gildi á öllu landinu og mun standa fram að miðnætti í kvöld. Henni er aflétt eftir miðnætti á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu en mun standa yfir fram á aðfaranótt föstudags á austanverðu landinu.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×