Íslenski boltinn

Fjórir sóttu um stöðu yfirmanns knattspyrnumála

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, bíður með ráðninguna þar til á næsta ári.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, bíður með ráðninguna þar til á næsta ári. Fréttablaðið/Anton Brink
Aðeins þrír sem uppfylltu kröfur KSÍ sóttu um starf yfirmanns knattspyrnumála hjá Knattspyrnusambandi Íslands en í heildina sóttu fjórir um. Framkvæmdastjóri KSÍ svaraði ekki fyrirspurn Vísis um umsóknirnar á dögunum en þetta kemur fram í fundargerð síðasta stjórnarfundar KSÍ sem fram fór 22. nóvember.

Eftir langa bið var starfið loksins auglýst 25. október. Til stóð að ráða yfirmann knattspyrnumála fyrir lok árs, eins og Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sagði í samtali við Fótbolti.net í byrjun sama mánaðar.

Eins og kom fram í gær hefur ráðningu á yfirmanni knattspyrnumála verið frestað fram yfir ársþing KSÍ sem fram fer í febrúar á næsta ári en starfið og nýjar skipulagsbreytingar sambandsins voru kynntar fyrir félögunum á formanna- og framkvæmdastjórafundi síðastliðinn laugardag.

„Enn fremur mun koma fram í greinargerð með fjárhagsáætlun 2019 að gert sé ráð fyrir þessari stöðu í fjárhagsáætlun. Framkvæmdastjóra og formanni var falið að senda umsækjendum upplýsingar um að staðan sé enn til umfjöllunar og verði fram yfir ársþing,“ segir í fundargerðinni.

Ekki kemur fram í fundargerðinni hverjir sóttu um starfið en Arnar Grétarsson er allavega ekki einn þeirra. Hann er á eini sem tjáð sig hefur opinberlega en hann sagðist ekki hafa sótt um í útvarpsviðtali á Fótbolti.net fyrr í þessum mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×