Menning

Verk fyrir þá sem vilja muna um hvað lífið snýst

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sara Martí Guðmundsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir í hlutverkum sínum.
Sara Martí Guðmundsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir í hlutverkum sínum. Juliette Rowland
Júlía er ekta íslensk ofurkona sem gefur sig 110% í allt sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er eftirsóttur ferlafræðingur með eigið ráðgjafarfyrirtæki en nýtt hlutverk hennar í lífinu hefur reynst henni krefjandi – móðurhlutverkið.

Í stað þess að horfast í augu við erfiðleika sem fylgja nýja lífinu tapar hún sér í ferlagreiningu, bollakökubakstri og í hlutverki sínu sem Snapchatstjarna. Þegar óumflýjanlegar breytingar vofa yfir hjá fjölskyldunni, reynir hún að endurnýja tengslin við æskuvinukonu sína. Saman ætla þær að skipuleggja grunnskólarejúníon aldarinnar.



Sólveig og Sara Martí í hlutverkum sínum. Mynd/Juliette RowlandJ. Rowland
Þannig er efni hins nýja leikverks Rejúníon lýst. Það er eftir Sóleyju Ómarsdóttur hagfræðing og verður frumsýnt í Tjarnarbíói annað kvöld.

„Ég tel marga geta tengt við þessa sögu, í henni er ekki bara drama heldur líka kímni og fegurð,“ segir Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar og höfundur hljóðheims. Hún segir handritsdrög Sóleyjar hafa ratað í hendur eiginmanns síns, Árna Kristjánssonar, er hann var leiðbeinandi á ritlistarnámskeið. Ég komst í þau líka og þau heilluðu okkur bæði. „Í fyrsta lagi er Sóley rosalega flottur og hnyttinn penni. Svo var ég ólétt svo efnið talaði beint til okkar og við sáum á þeim fáu senum sem við fengum að þarna var vel skrifað og gott efni sem aldrei hafði ratað á íslenskt leiksvið. Það kveikti í okkur og við vorum allt sumarið í fyrra að fullvinna handritið með Sóleyju, þar til að ég fæddi, þann 1. október, sama dag og við skiluðum inn umsókn um listamannalaun. Þetta var flott meðganga og við uppskárum styrk sem gerði þetta verkefni að veruleika.“

Þó að fæðingarþunglyndi sé útgangspunkturinn í verkinu segir Harpa Fönn það ekki síst fjalla um um vináttu og ástarsambönd para, bæði dásamlegar stundir og erfiðleika sem koma upp þar. „Svo er þetta líka um nostalgíu. Því eins og nafn verksins gefur til kynna þá snýst verkið um endurfundi, 20 ára grunnskólarejúníón,“ minnir hún á og bætir við. „Þetta er verk fyrir þá sem vilja finna fyrir lífinu og muna um hvað það snýst.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×