Innlent

Gunnar Bragi segir pólitíska inneign sína laskaða

Atli Ísleifsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson var í viðtali í Kastljósi í kvöld.
Gunnar Bragi Sveinsson var í viðtali í Kastljósi í kvöld. vísir/vilhelm
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, segir að pólitísk inneign sín sé löskuð eftir fréttaflutning fjölmiðla af fundi fjögurra þingmanna Miðflokksins og tveggja þingmanna Flokks fólksins á hótelbarnum Klaustri fyrr í mánuðinum.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld þar sem rætt var við Gunnar Braga. Á upptökunum mátti heyra þingmennina fara ófögrum orðum um fjölda nafngreindra þingkvenna. Gunnar Bragi segist ekki sjá ástæðu til þess að segja af sér, þar sem hann hafi ekki brotið af sér.

Einar Þorsteinsson fréttamaður spyr í viðtalinu meðal annars um siðareglur þingsins, sem séu skýrar. „Það stendur bara að það eigi ekki að kasta rýrð á Alþingi, skaða ímynd þess með framkomu sinni - sem ég held að við hljótum að geta verið sammála um að þú hefur gert,“ segir Einar.

„Það er örugglega alveg á mörkunum,“ svarar Gunnar Bragi þá.

Albertína á göngum Alþingis í morgun.Vísir/Vilhelm

Spurður út í samskiptin við Albertínu

Í upphafi viðtalsins er Gunnar Bragi spurður út í þau orð sín á upptökunum að Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, núverandi þingmaður Samfylkingarinnar, hafi reynt að nauðga sér á dansleik.

„Við áttum ákveðin samskipti fyrir nokkuð löngu síðan, en nauðgun er alltof sterkt orð og ég er búinn að biðja Albertínu afsökunar á því,“ segir Gunnar Bragi.

Hann segist svo ekki vilja fara nánar út í það hvað gerðist. „En við vorum á dansleik þar sem ákveðið atvik átti sér stað, en að saka hana um nauðgun er alltof sterkt orð og ég dreg það til baka.“

Þessu hafi verið varpað fram í einhverju fylleríisrausi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×