Enski boltinn

Verður United fyrst liða til að vinna meistarana?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Romelu Lukaku
Romelu Lukaku vísir/getty
Klukkan 16.30 á morgun flautar Anthony Taylor til leiks hjá Manchester-liðunum, City og United, á Etihad. Þetta er lokaleikur 12. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar og sá síðasti fyrir landsleikjahlé.

City hefur byrjað þetta tímabil eins og liðið endaði það síðasta; með því að vinna leiki og skora haug af mörkum. Strákarnir hans Peps Guardiola hafa unnið níu af fyrstu ellefu deildarleikjum sínum og gert tvö jafntefli. City hefur skorað 33 mörk og aðeins fengið á sig fjögur. City hefur unnið sex leiki í röð í öllum keppnum með markatölunni 23-1. Það er því yfir litlu að kvarta, inni á vellinum allavega.

Það hefur gustað hressilega um United, eða réttara sagt José Mourinho. En úrslitin í síðustu leikjum hafa verið góð. United hefur unnið þrjá leiki í röð í öllum keppnum. Stærsti sigurinn kom gegn Juventus á miðvikudaginn. Enska liðið lenti undir en tryggði sér sigurinn með því að skora tvö mörk undir lokin. United hefur raunar lent undir í fimm af síðustu sex leikjum sínum en aðeins tapað einum þeirra.

United lenti einmitt undir í síðasta leik sínum á Etihad en kom til baka, vann og frestaði því að City fagnaði Englandsmeistaratitlinum. Það var einn af fáum hápunktum á frekar auðgleymanlegu tímabili hjá United sem endaði 19 stigum á eftir grönnum sínum.

Guardiola og Mourinho hafa marga hildina háð og oft hefur verið stirt á milli þeirra. Þeir hafa þó að mestu haldið sig á mottunni síðan þeir tóku við Manchester-liðunum sumarið 2016.

Lið undir stjórn Guardiola og Mourinho hafa mæst 21 sinni. Spánverjinn hefur yfirhöndina í leikjum þeirra á milli. Hann hefur unnið tíu leiki, Mourinho fimm og sex sinnum hefur orðið jafntefli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×