Erlent

Áfram í fangelsi vegna Facebook-ummæla

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Facebook.
Facebook. Vísir/Getty
Aðgerðasinninn, rithöfundurinn, ljóðskáldið og fræðimaðurinn Stella Nyanzi hefur verið í fangelsi í Úganda síðan í síðasta mánuði eftir að hún var ákærð í fyrra fyrir að hafa kallað Yoweri Museveni forseta „rasshaus“ á síðasta ári. Yfirvöld líta á að með ummælunum, sem féllu á Facebook, hafi Nyanzi brotið gegn lögum um stafræna áreitni.

Nyanzi ákvað í gær að hafna lausn gegn tryggingu svo hún gæti verið áfram í fangelsi og kennt konum hvernig á að nota Facebook. „Hvað er eiginlega verið að rannsaka? Hvort Yoweri Museveni sé enn móðgaður? Ég ætla að fara aftur í Luzira-fangelsið og kenna konunum þar hvernig maður skrifar á Facebook svo þær geti skrifað eins og ég geri þegar þær losna,“ sagði Nyanza við dómara í Buganda Road í gær.

Hún sagði jafnframt að það væri í eðli hennar, sem skálds og rithöfundar, að skrifa. Hún hafi valið að beina skrifum sínum gegn ríkisstjórninni.

Nyanzi hefur reglulega kvatt sér til hljóðs í mótmælum gegn yfirvöldum. Á síðasta ári vakti hún athygli í baráttu gegn brottrekstri af skrifstofu sinni við Makerere-háskóla. Þá batt hún sig fasta á svæðinu og afklæddist fyrir framan tökumenn fréttastöðva.

Auk þess að hafa barist af krafti gegn ríkisstjórn Yoweris Museveni hefur Nyanzi til dæmis barist fyrir því að úgandskar konur fái tíðavörur gjaldfrjálst sem og fyrir réttindum hinsegin fólks.

BBC fjallaði ítarlega um þessa baráttukonu á síðasta ári, eftir að hún var ákærð fyrir ummælin um forsetann. „Museveni segist enga peninga eiga fyrir tíðavörunum sem hann lofaði. Samt er hann að lofa því að koma upp eftirlitsmyndavélum úti á götu. Hvílíkar lygar,“ hafði breska ríkisútvarpið til að mynda eftir Stellu Nyanzi í umfjölluninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×