Viðskipti innlent

Björn Ingi stofnar nýjan fjölmiðil

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björn Ingi Hrafnsson
Björn Ingi Hrafnsson Fréttablaðið/Valli
Björn Ingi Hrafnson hefur stofnað nýjan vefmiðil sem nefnist Viljinn. Vefmiðlinum er ætlað að vera nútímalegur og borgaralega sinnaður sem hafi góða blaðamennsku að höfuðmarkmiði.

Frá þessu greinir Björn Ingi á Facebook-síðu sinni en þar segir Björn að hann hafi verið við níu ára aldurinn þegar hann hafi ákveðið að verða blaðamaður. Því hafi hann stofnað blaðið Viljann og fjölritað eintök af því. Nú sé hins vegar kominn tími ti að endurvekja Viljann, nú sem vefmiðil.

„Formleg opnun er á næstu dögum, við erum bara að prófa hvort allt virki og setja þetta af stað í rólegheitum,“ skrifar Björn Ingi. Á vefsíðu Viljans segir að íslenskir fjölmiðlar keppist um að vera fyrstir með fréttirnar í „í stað þess að leggja áherslu á túlkun, ályktanir og úrvinnslu.“

Umræðan verði því yfirborðskennd og meira sé um upphrópanir og stóryrði en málefni og staðreyndir.

Því séu uppi „kjöraðstæður fyrir nútímalegan og borgaralega sinnaðan vefmiðil sem hefur góða blaðamennsku að höfuðmarkmiði og veitir almenningi þá mikilvægu þjónustu að sía það markverðasta úr upplýsingaflóðinu“ og segir einnig að Viljinn sé slíkur miðill.

Síðustu afskipti Björns Inga af fjölmiðlum voru á síðasta ári en þá var hann forsvarsmaður Pressusamstæðunnar sem rak meðal annars DV og Pressuna. Pressan var tekin til gjaldþrotaskipta í desember árið 2017. 315 milljón króna kröfum var lýst í þrotabú Pressunnar.






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×