Sport

Íslandsmet féllu í Ásvallalaug

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Anton Sveinn Mckee.
Anton Sveinn Mckee. vísir/anton
Anton Sveinn McKee bætti níu ára gamalt Íslandsmet og nældi sér í HM lágmark í 200m bringusundi á Íslandsmeistaramótinu í 25m laug.

Anton synti á 2:07,04 og varð Íslandsmeistari í greininni. Hann bætti þar Íslandsmet Jakobs Jóhanns Sveinssonar um tæpa sekúndu, gamla metið var 2:07,75.

Fyrr í gær náðust tvö önnur HM lágörk, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir fór 50m baksund á 27,95 sekúndum og var einum hundraðasta úr sekúndu undir HM lágmarkinu í greininni. Hún var fyrsta íslenska konan til þess að ná lágmarki á mótið sem fer fram í Kína í desember.

Kristinn Þórarinsson, sem synti undir HM lágmarki í 200m fjórsundi á föstudag, náði einnig í lágmark í 50m baksundi þegar hann varð Íslandsmeistari á 24,27 sekúndum. Lágmarkið er 24,82.

Íslandsmeistaramótið er haldið sameiginlega af sundsambandinu og íþróttasambandi fatlaðra og náði Róbert Ísak Jónsson að vinna bronsverðlaun í 100m flugsundi með því að synda á 59,12 sekúndum sem er Íslandsmet í flokki þroskahamlaðra S14.

Hann gerði enn betur í 400m fjórsundi. Þar náði hann í silfurverðlaun á nýju heimsmeti, 4:42,63 mínútum. Tíminn er einnig nýtt Íslandsmet, en þegar fréttatilkynning ÍF var send út í gærkvöld var ekki búið að staðfesta heimsmetið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×