Handbolti

Ásbjörn: Er ekki að hugsa um landsliðið

Benedikt Grétarsson skrifar
Ásbjörn átti frábæran leik gegn Íslandsmeisturunum
Ásbjörn átti frábæran leik gegn Íslandsmeisturunum vísir/daníel
Ásbjörn Friðriksson fór á kostum í liði FH í naumum sigri liðsins gegn ÍBV í Olísdeild karla í handbolta. Ásbjörn skoraði 12 mörk í 28-27 sigri FH og var bæði þreyttur og sáttur í leikslok.

 

„Það er ágætis ávani að klára leiki í lokin en mér fannst við hálf andlausir og ólíkir sjálfum okkur fyrstu 40 mínútur leiksins. Dóri æpir aðeins á okkur í leikhléi og þá kviknar smá líf í okkur. Þá erum við fljótir að vinna upp forskotið og stemmingin var með okkur í lokin.“

 

Þrátt fyrir að ÍBV hafi ekki gengið neitt sérlega vel, er valinn maður í hverju rúmi hjá meisturunum.

 

„Þeir eru með frábæra leikmenn í öllum stöðum. Hákon Daði og Kári Kristján koma inn af bekknum hjá þeim í dag, þannig að það segir ýmislegt um þetta lið. Við þurfum að eiga góðan leik til að leggja þá og í heildina gekk það eftir hjá okkur. Við vitum að við erum góðir síðasta korterið og sýndum það enn og aftur,“ sagði Ásbjörn.

 

En hvað er að skila þessum baráttusigrum?

 

„Við höfum verið skynsamir síðustu mínúturnar í leikjum okkar og yfirleitt spilað okkur í besta færið. Það skilar okkur þessum stigum í öllum þessum jöfnu leikjum og við þurfum að halda því áfram. Við getum samt bætt eitt og annað hjá okkur.

 

Blaðamaður heyrði ungan stuðningsmann FH kalla „Ása í landsliðið!“ á pöllunum í kvöld. Er kappinn eitthvað með hugann við þann möguleika?

 

„Nei, ég er ekki að hugsa um það. Ég er að hugsa um að spila vel fyrir FH og hef lítið hugsað um landsliðið,“ sagði Ásbjörn brosandi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×