Innlent

Úthlutun sautján aðstoðarmanna rædd

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir í pontu Alþingis á síðustu dögum þingsins í vor.
Katrín Jakobsdóttir í pontu Alþingis á síðustu dögum þingsins í vor. Vísir/VIlhelm
Samstaða er meðal flokka á þingi um það að fjölga aðstoðarmönnum þingflokka en ekki er samkomulag um í hvaða röð þeim skuli úthlutað. Þingflokksformenn munu funda um málið í dag og er stefnt að því að ljúka málinu áður en umræður um fjárlög fara á fullt á ný.

Núverandi tillögur gera ráð fyrir því að sautján aðstoðarmenn deilist niður á þingflokkana í samræmi við þingstyrk þeirra en að auki fái hver flokkur ritara. Þingflokkar geta áfram ráðið sér aðstoðarmenn á eigin kostnað. Forsætisnefnd samþykkti fyrirhugaða fjölgun í sumar en með henni er stefnt að því að efla Alþingi.

Formenn þingflokka hafa undanfarið rætt hvernig skuli standa að úthlutun þeirra aðstoðarmanna sem til stendur að bæta við. Stefnt er að því að aðstoðarmönnum fjölgi í þrepum þannig að hluti bætist við nú um áramótin og síðan á ný þegar árin 2020 og 2021 ganga í garð.

„Ef farið væri eftir venjulegri hlutfallsskiptingu strax í upphafi myndu stærstu flokkarnir fyrst fá aðstoðina sem er í boði. Það er ekki réttlætanlegt. Tillagan er sú að í upphafi fengju allir einn og síðan yrði úthlutað eftir þingstyrk,“ segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.

„Það eru alls konar sjónarmið uppi en engin endanleg niðurstaða liggur fyrir,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Aðspurður um hvaða áhrif fjölgunin gæti haft á komandi kjarasamningaviðræður segir Birgir að hann sjái hana ekki sem áhrifaþátt . Tiltölulega breið sátt sé um málið á þingi.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2019 er gert ráð fyrir að fjárheimildir til Alþingis verði auknar um rúmar 120 milljónir til að auka aðstoð við þingflokka og þingmenn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×