Innlent

Sjúkrahúsprestur ræðir fíkn og handrukkun í útförum

Sighvatur Jónsson skrifar
Séra Vigfús Bjarni ræddi handrukkun í útför í Hallgrímskirkju á dögunum.
Séra Vigfús Bjarni ræddi handrukkun í útför í Hallgrímskirkju á dögunum. Fréttablaðið/Eyþór
Séra Vigfús Bjarni Albertssson, sjúkrahúsprestur og mannauðsstjóri Þjóðkirkjunnar, segir að aðstandendur fólks sem hafi framið sjálfsvíg lýsi fyrir sér niðurbroti og ógn frá fólki sem vinnur við það að handrukka fíkla vegna skulda þeirra.

Hann segir áhyggjuefni að veikt fólk sé í höndunum á slíku ofbeldisfólki sem ógni fíklum og fjölskyldum þeirra.

„Ég hef að minnsta kosti tvö tilfelli frá fjölskyldum þar sem einstaklingur tjáði sig um það áður en hann féll úr sínum veikindum hvað það var búið að svipta hann eða hana miklu öryggi, tilvist, trú og þor til að lifa af ofbeldi,“ segir Vigfús Bjarni í samtali við fréttastofu.

Vigfús Bjarni Albertsson.Visir/Vilhelm

Svipta hulunni af veruleikanum

Í samráði við aðstandendur og með leyfi þeirra ræðir séra Vigfús Bjarni þessi mál opinskátt í útförum fólks sem hefur svipt sig lífi. 

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að svipta hulunni af þessum veruleika. Það er mikilvægt þegar við erum að takast á við skömm og aðrar erfiðar tilfinningum að við tölum um alla þá hluti sem fylgja þessum alvarlegu veikindum.“

Séra Vigfús Bjarni segir það því miður hluta af veikindum fíkla að fólk sé að misbjóða þeim og misnota aðstæður þeirra og það sé alvarlegt. 

„Það á að tala um það og það er gott fyrir fjölskyldur að þessi sannleikur sé bara settur upp á borðið.“ Hann segir mikilvægt að lífssaga fólks sé sett fram í útförum. 

„Og þetta er því miður orðinn hluti af lífssögu sumra fíkla,“ segir séra Vigfús Bjarni Albertsson.

Vigfús Bjarni vakti athygli á ofbeldi sem íslenskar fjölskyldur verða fyrir í færslu á Facebook fyrir helgi.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×