Erlent

Aðskilnaðarsinnar skikkaðir til að greiða kostnað við ólöglegar kosningar

Andri Eysteinsson skrifar
Artur Mas var forseti heimastjórnar Katalóníu um sex ára skeið.
Artur Mas var forseti heimastjórnar Katalóníu um sex ára skeið. EPA/ Alejandro Garcia
Spænskur dómstóll hefur skipað katalónska stjórnmálamanninum Artur Mas að standa straum af kostnaði við kosningar árið 2014 sem hafa verið dæmdar ólöglegar. BBC greinir frá.

Artur Mas gegndi embætti forseta heimastjórnar Katalóníu á árunum 2010 til 2016. Á meðan að á stjórnartíð hans stóð efndu stjórnvöld í Katalóníu til ráðgefandi kosninga um sjálfstæði héraðsins frá Spáni.

Þær kosningar fóru fram 9. nóvember 2014. Spænska ríkisstjórnin brást ókvæða við og tilkynnti að aðgerðir til að stöðva kosningarnar yrðu gerðar.

Mas var ásamt níu öðrum fyrrum starfsmönnum hins opinbera dæmdur til að endurgreiða ríkissjóði Spánar um 4,9 milljónir evra vegna kosninganna.

Dómstóllinn sagði í úrskurði sínum að Mas hafi brotið gegn fyrirskipun stjórnvalda og réttarins. 

Kosningarnar 2014 fóru friðsamlega fram og er talið að yfir 80% hafi verið hlynnt sjálfstæði héraðsins. Aðskilnaðarsinnar héldu einnig kosningar í fyrra sem einnig voru dæmdar ólöglegar.

Þær kosningar fóru hins vegar ófriðsamlega fram og vöktu tilraunir lögreglu til að stöðva kosninguna athygli og reiði erlendra ríkja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×