Fótbolti

Birkir Bjarna: Of mikið af meiðslum í þessari keppni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason segir að það hafi verið of mörg meiðsli hjá leikmönnum liðsins í Þjóðadeildinni en að það þurfi að líta jákvæðum augum á það.

Birkir er einn fárra lykilmanna landsliðsins sem hefur verið í hópnum alla leikina í Þjóðadeildinni en nú síðast duttu þeir Gylfi Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson úr leik. Hvernig líst honum á þetta?

„Ég er hálf meiddur sjálfur en þetta er búið að vera einum of mikið af meiðslum í þessari keppni. Við þurfum bara að horfa jákvæð á það,“ sagði Birkir í samtali við Guðmund Benediktsson í Belgíu.

„Þessir nýju koma þá inn og þá fáum við aðeins að spila saman. Það er búið að vera síðustu fimm til sex árin að það er mikið spilað á sömu mönnum svo ég held að það sé jákvætt að fá ný andlit inn.“

Birkir hefur sjálfur verið að glíma við meiðsli en er mættur til Belgíu. Það er þó ekki alveg klárt að hann verði klár í slaginn á miðvikudaginn en hann er að glíma við meiðsli í nára.

„Hún er ágæt. Við verðum að sjá til. Þetta var stutt æfing í dag en ég tek æfingu á morgun og sé hvernig ég er. Þetta eru leiðinleg meiðsli í nára sem geta dregist aðeins en vonandi verður þetta í lagi.“

Stjóraskipti voru hjá Aston Villa, þar sem Birkir leikur, fyrr á leiktíðinni og hann segir að þau hafi skilað sér í betri frammistöðu.

„Það er mjög gott. Þeir eru búnir að koma mjög vel inn í þetta. Við erum byrjaðir að spila mjög vel og betur en við gerðum áður en þeir komu inn. Ég sé bara jákvæð á þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×