Handbolti

Sjáðu leikhléið sem vann leikinn fyrir FH

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Halldór Jóhann las yfir sínum mönnum
Halldór Jóhann las yfir sínum mönnum s2 sport
FH vann ótrúlegan endurkomusigur á ÍBV í Olísdeild karla um helgina. Leikhlé Halldórs Jóhanns Sigfússonar í seinni hálfleik vann leikinn fyrir FH.

Staðan var 22-17 fyrir ÍBV og Hafnfirðingar í tómu tjóni þegar Halldór Jóhann tók leikhlé á 41. mínútu.

„Strákar. Það er eitt lið hérna sem hefur áhuga á að vinna þennan leik og það eru þeir,“ öskraði Halldór Jóhann á sína menn. „Það hefur enginn áhuga á því sem við erum að gera hérna. Hvað eigum við þá að gera?“

„Það skiptir engu máli hvað það er, það eru allir með hausinn í bringunni, hefur enginn gaman af því sem við erum að gera og það er enginn að berjast. Kommon,“ hélt hann áfram og lagði svo upp liðið fyrir næstu sóknir.

„Aðeins að kveikja í okkur hérna, djöfullin hafi það maður,“ sagði Halldór að lokum þegar hann gekk út úr hringnum í lok leikhlésins.

Eftir þetta leikhlé náði FH að minnka muninn og vann svo að lokum 28-27 sigur.

„Hvernig FH hefur byrjað tímabilið segir allt um Halldór sem þjálfara. Ég held hann sé einn af allra bestu þjálfurunum hérna heima og er bara búinn að sýna það að hann er með góða línu í sínum leik,“ sagði Dagur Sigurðsson í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld þegar atvikið var rætt.

„Vel gert hjá leikmönnunum líka að svara þessu. Hvernig hann nær að kreista fram sigur það er það sem hann er að gera betur en margir aðrir,“ bætti Jóhann Gunnar Einarsson við.

Umræðuna og þetta frábæra leikhlé má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Leikhléið sem vann leikinn





Fleiri fréttir

Sjá meira


×