Viðskipti innlent

Capacent metur virði Marels 40 prósentum yfir markaðsgengi

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Árni Oddur Þórðarson er forstjóri Marels.
Árni Oddur Þórðarson er forstjóri Marels. Fréttablaðið/Valli
Verðmatsgengi Capacent er 40 prósentum hærra en markaðsgengi, eða 530 krónur á hlut, samkvæmt greiningu sem birtist á mánudag. Verðmatið er nær óbreytt í evrum talið frá síðasta mati en hækkar um nærri ellefu prósent í kjölfar tólf prósenta veikingar krónu.

Verðmat Capacent á Marel hækkaði mikið árið 2017 og hefur heldur hækkað á þessu ári. Hækkunina má rekja til stórbætts rekstrar, mikils tekjuvaxtar og kaupa á eigin bréfum. Nú, eins og fyrr segir, skýrist hækkunin af gengisfalli krónu. Fyrri hluta árs 2017 fylgdi markaðurinn hækkun verðmats Capacent frekar þétt eftir, segir í greiningunni, en frá miðju ári 2017 hefur munurinn á verðmati og markaðsgengi aukist jafn og þétt. „Þrátt fyrir góðan rekstur og bætta arðsemi í rekstri hefur gengi Marels á markaði hækkað lítið síðastliðna 18 mánuði,“ segir Capacent.

Marel er orðið of stórt fyrir íslenskan verðbréfamarkað, segir í greiningunni. Gengið hafi verið nær óbreytt frá ársbyrjun þrátt fyrir góðan rekstur og hagstæðar verðkennitölur. „Markaðsvirði félagsins er margföld árleg fjárfestingargeta íslenskra lífeyrissjóða sem eru langstærstu fjárfestarnir á innlendum hlutabréfamarkaði. Það er ljóst að ákvörðun stjórnar félagsins um að skrá félagið í erlenda kauphöll er góð. Það er nauðsynlegt skref fyrir félagið og tímasetningin virðist vera góð,“ segir Capacent.

Marel stefnir á 12 prósenta meðalvöxt árlega yfir tímabilið 2017-2026 með yfirtökum og innri vexti. Reiknað er með að markaðurinn vaxi um fjögur til sex prósent á næstu árum. Greinandi Capacent veltir því fyrir sér hvort stjórnendur Marels ættu að setja í fyrsta sæti markmið um arðsemi undirliggjandi rekstrar frekar en vöxt. Ljós sé að fyrirtækið þurfi að standa í miklum fyrirtækjakaupum ef þau markmið eigi að nást. „Yfirtökur eru kostnaðarsamar, draga tímabundið úr arðsemi og geta dregið athygli frá daglegum rekstri,“ segir í greiningunni. „Hvert brot úr prósenti í rekstrarhagnaðarhlutfalli eykur verðmæti undirliggjandi rekstrar mikið en hraður vöxtur getur bitnað á arðsemi sem hefði neikvæð áhrif á verðmæti félagsins.“




Tengdar fréttir

Viðskiptahindranir gætu sett strik í reikninginn hjá Marel

Viðskiptahindranir og umrót í alþjóðakerfinu mynda ósamræmi í framboði og eftirspurn matvæla innan heimshluta sem gæti leitt til þess að eftirspurn eftir tækjum frá Marel verði ekki jafn mikil á næstunni og hún hefur verið að undanförnu. Þetta segir Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marels.

Marel á markað í Evrópu

Stjórnendur Marels stefna á tvíhliða skráningu í kauphöll í Evrópu og á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×