Viðskipti innlent

Hlutaféð aukið með sameiningu félaga

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Þingvangur var stofnað árið 2006.
Þingvangur var stofnað árið 2006. Vísir/Vilhelm
Pálmar Harðarson, eigandi Þingvangs ehf., jók nýverið hlutafé verktakafyrirtækisins með sameiningu við þrjú önnur félög í hans eigu. Félögin sem um ræðir eru Þórsbygg ehf., móðurfélagið Eignasamsteypan ehf. og Marnes ehf. en með sameiningunni var hlutafé Þingvangs aukið úr 500 þúsund krónum í 9 milljónir að nafnvirði.

Í svari Þingvangs við fyrirspurn frá Markaðinum kom ekki fram á hvaða gengi hlutafjáraukningin fór fram né heldur hvers vegna ákveðið var að ráðast í hlutafjáraukningu.

Markaðurinn greindi í haust frá helstu atriðum í ársreikningi Þingvangs. Þingvangur átti eignir upp á 17,4 milljarða króna í lok síðasta árs borið saman við 13,4 milljarða eignir í lok árs 2016. Var eigið fé félagsins um 677 milljónir og eiginfjárhlutfallið því 3,9 prósent. Þá var handbært fé 61 milljón í árslok 2017. Félagið hagnaðist um tæpar 92 milljónir króna í fyrra samanborið við 695 milljóna króna hagnað árið 2016.

Þingvangur hefur staðið í mikilli uppbyggingu á hinum svokallaða Hljómalindarreit í miðbæ Reykjavíkur. Þar voru byggðir 10.500 fermetrar, þar af 10 íbúðir við Laugaveg og 16 við Klapparstíg auk skrifstofu- og verslunarhúsnæðis. Verktakafyrirtækið byggði einnig 141 íbúð á Grandavegi og lauk þeim framkvæmdum í ár. Þá standa yfir framkvæmdir á Brynjureitnum sem er sameinuð lóð Hverfisgötu 40-44 og Laugavegs 27a-27b.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×